Sjávarútvegsráðherra stofnar starfshóp til þess að kanna stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi
Sjávarútvegsráðherra stofnar starfshóp til þess að kanna stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi.
Sjávarútvegsráðherra kynnti á utandagskráumræðu á alþingi fimmtudaginn 3.nóv þá ákvörðun sína að skipa starfshóp til að kanna stöðu og horfur í rækjuiðnaði.
Rekstrarumhverfi í rækjuiðnaði hefur versnað mjög á síðustu misserum. Ástæðurnar eru m.a. sterk staða krónunnar, lágt afurðaverð, hátt hráefnisverð á iðnaðarrækju, sölutregða og algjör aflabrestur á Íslandsmiðum samhliða mjög háu olíuverði.
Í september 2004 voru 14 rækjuverksmiðjur starfandi á Íslandi. Ári síðar eða í september 2005 hafði þeim fækkað í 11. Miðað við núverandi stöðu má búast við því að þeim muni fækka ennfrekar og verða sennilega 8 um áramótin.
Formaður nefndarinnar er Davíð Ólafur Ingimarsson, hagfræðingur hjá sjávarútvegsráðuneytinu, en aðrir í nefndinni eru Ólafur H. Marteinsson hjá Þormóði Ramma og Pétur Grétarsson hjá Byggðastofnun. Starfshópnum er ætlað að skila niðurstöðum sínum fyrir miðjan desember.