Birting laga og stjórnvaldsfyrirmæla með rafrænum hætti
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra opnaði í gær við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu nýjan vef Stjórnartíðinda og þar með hófst rafræn útgáfa Stjórnartíðinda,
Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra opnaði í gær við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu nýjan vef Stjórnartíðinda og þar með hófst rafræn útgáfa Stjórnartíðinda, en framvegis miðast réttaráhrif laga og stjórnvaldafyrirmæla við birtingu á vefnum. Verða lög og reglugerðir, aðgengilegar almenningi á netinu um leið og þær öðlast gildi, og auk þess verða leitarskilyrði í efni Stjórnartíðinda bætt til muna.
Með hinni rafrænu útgáfu lýkur því skeiði í rúmlega 130 ára sögu Stjórnartíðinda, að af hinni prentuðu útgáfa þeirra ákvarðist gildistökudagur laga og reglna. Þeir, sem þess óska, geta keypt Stjórnartíðindi prentuð á kostnaðarverði, bæði sem áskrifendur að deildum þess eða sem kaupendur einstakra hefta.
Hin rafræna útgáfa á vefnum er lokaáfangi í vinnu, sem hófst árið 2000, með skipun nefndar til að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag á birtingu laga og stjórnvaldaerinda. Í ársbyrjun 2002 var ákveðið að Stjórnartíðindi birtust á netinu og er nú hægt að nálgast þar öll mál frá og með 2001 sem birt hafa verið í A- og B-deild Stjórnartíðinda og frá og með 1995 í C-deild eða alls um 6000 auglýsingar. Þær verða nú færðar inn í hið nýja kerfi með aðgangi frá hinni nýju forsíðu vefjarins.
Ný gjaldskrá Stjórnartíðinda var fyrsta auglýsingin sem birt er með nýjum hætti. Veffang stjórnartíðinda er www.stjornartidindi.is