Dagur íslenskrar tungu 2005
Fyrir tíu árum ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert.
Fyrir tíu árum ákvað ríkisstjórnin að fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember, yrði dagur íslenskrar tungu ár hvert. Menntamálaráðuneytið hefur síðan árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls og helgað þennan dag rækt við það, í góðu samstarfi við skóla, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga enda virðist dagur íslenskrar tungu hafa náð fótfestu í samfélaginu.
Dagsins er minnst með margvíslegu móti. Hér verða nefnd ýmis dæmi um viðburði o.fl. nú í ár.
Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar veitt á hátíðardagskrá í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus-húsum
Á degi íslenskrar tungu, miðvikudaginn 16. nóvember, verður hátíðardagskrá þar sem menntamálaráðherra afhendir Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2005 auk tveggja sérstakra viðurkenninga fyrir störf í þágu íslensks máls. Dagskráin verður í sal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus-húsum í Reykjanesbæ kl. 16-17. Tónlistarflutningur í umsjón Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Upplestur: Elísa Sveinsdóttir og Óli Ragnar Aðalsteinsson, verðlaunahafar úr Stóru upplestrarkeppninni. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Námsgagnastofnun
Námsgagnastofnun hefur útbúið sérstakar vefsíður helgaðar degi íslenskrar tungu. Undir tenglinum Í dagsins önn er smellt á tengil um ýmsa merkisdaga og þar á meðal er dagur íslenskrar tungu. Önnur síðan um dag íslenskrar tungu fjallar sérstaklega um ljóðagerð. Sjá http://namsgagnastofnun.is.
Ljóðatónleikar Söngskólans í Reykjavík með alíslensku efni
Söngskólinn í Reykjavík tekur smáforskot á sæluna og heldur upp á dag íslenskrar tungu með ljóðatónleikum með alíslensku efni þriðjudaginn 15. nóvember kl. 20.00 í tónleikasal Söngskólans, Snorrabúð, Snorrabraut 54. Fluttir verða íslenskir ljóðasöngvar. Söngvarar: Nemendur í ljóða- og aríudeild Söngskólans í Reykjavík. Píanó: Kristinn Örn Kristinsson. Umsjón: Ólöf Kolbrún Harðardóttir yfirkennari. Boðið upp á veitingar í þjóðlegum stíl, kaffi og kleinur.
Dagur íslenskrar tungu í Kennaraháskóla Íslands
Dagskrá verður í Kennaraháskóla Íslands 16. nóvember, allan daginn. Verkefni nemenda verða kynnt kl. 8.30-15
Bókmenntaþing ungra lesenda
Í ár er bryddað upp á þeirri nýjung að efna til sérstaks bókmenntaþings sem ætlað er börnum og unglingum á aldrinum 10-16 ára. Að þinginu standa Íslensk málnefnd, Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar og SÍUNG, samtök íslenskra barna- og unglingabókahöfunda. Þingið verður haldið í Reykjanesbæ á degi íslenskrar tungu 16. nóvember kl. 10-12. Frummælendur á þinginu verða börn og unglingar úr Áslandsskóla og Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, Grunnskóla Grindavíkur, Holtaskóla og Myllubakkaskóla í Keflavík og Njarðvíkurskóla. Yfirskrift bókmenntaþings ungra lesenda er Er gaman að lesa? Ungir lesendur flytja samtals 10 framsöguerindi. Þar verður spurningunni í yfirskrift þingsins svarað frá ýmsum sjónarhornum og m.a. fjallað um annars vegar raunsæi og hins vegar drauma- og ævintýraheima í bókum, um teiknimyndasögur og aðrar sögur, um muninn á bók og kvikmynd, um Gunnlaugs sögu og um Harry Potter. Auk nemenda, kennara og bókavarða verða á þinginu fulltrúar bókaútgefenda og barna- og unglingabókahöfunda sem sitja fyrir svörum unga fólksins í pallborði.
Málþing um Grunnavíkur-Jón í Þjóðminjasafninu
Félagið Góðvinir Grunnavíkur-Jóns efnir til málþings á degi íslenskrar tungu 16. nóvember kl. 12.15 í Þjóðminjasafninu en þar hefur nú í haust staðið sýningin Eldur í Kaupinhafn. Málþingið og sýningin er helguð minningu Jóns Ólafssonar frá Grunnavík en 16. ágúst sl. voru liðin 300 ár frá fæðingu hans. Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og MS Hið árlega málræktarþing undir merkjum dags íslenskrar tungu verður haldið laugardaginn 19. nóvember í hátíðasal Háskóla Íslands kl. 11.00-13.30. Umræðuefnið er að þessu sinni íslensk málstefna og starfsemi Íslenskrar málnefndar. Erindi halda Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar, Jóhann G. Jóhannsson, Íslenskri málnefnd, Kolbrún Friðriksdóttir, Íslenskri málnefnd, Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor og Örnólfur Thorsson, skrifstofustjóri forseta Íslands. Námsstyrkur Mjólkursamsölunnar verður afhentur en hann nemur 500 þús. kr. og er ætlaður námsmanni sem vinnur að lokaverkefni um íslenskt mál. Afhent verður viðurkenning Íslenskrar málnefndar og Nafnfræðifélagsins fyrir gott nafn á fyrirtæki. Þá verður sú nýbreytni að Íslensk málnefnd veitir viðurkenningu fyrir gott íslenskt mál í auglýsingu. Kvartettinn Iða syngur og sigurvegarar úr Stóru upplestrarkeppninni lesa upp. MS býður upp á veitingar í hléi. Þóra Björk Hjartardóttir verður fundarstjóri. Allir eru velkomnir.
Leikjavefurinn
Á Leikjavefnum eru margir leikir sem henta vel til notkunar á degi íslenskrar tungu. Má þar t.d. nefna flokk um orðaleiki, leiki til að finna málshátt, búa til orð, safna orðum o.s.frv. http://www.leikjavefurinn.is/
Leikskólar - dæmi
Samverustund á sal í tilefni dagsins. Unnið sérstaklega með íslenskt mál alla vikuna á undan deginum. Rætt um skáldið Jónas Hallgrímsson. Börnin læra vísur og söngva og búa til leikrit út frá ljóðum eða sögum Jónasar. Sérstakur bókadagur haldinn.
Stóra upplestrarkeppnin
Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember er formlegur upphafsdagur Stóru upplestrarkeppninnar á hverju hausti í grunnskólum landsins.
Sýningin Brynjólfur biskup og 17. öldin í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Þjóðarbókhlöðu
Með sýningunni er þess minnst að 14. september sl. voru liðin 400 ár frá fæðingu Brynjólfs Sveinssonar biskups. Brynjólfur gegndi mikilvægu hlutverki í sögu Íslands sem leiðtogi kirkjunnar, veraldlegur höfðingi, heimspekingur, fræðimaður, latínuskáld og frumkvöðull á sviði mennta og kirkjustjórnar. Hann hafði forgöngu um að safna handritum og lét skrifa þau upp.
Vefur dags íslenskrar tungu er: http://www.mrn.stjr.is/malaflokkar/Menning/dit
Menntamálaráðuneytið hefur falið Íslenskri málstöð að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu 2005. Nánari upplýsingar veitir Ari Páll Kristinsson, [email protected]
Menntamálaráðuneyti, 14. nóvember 2005.