Leiðtogafundur Sameinuðu þjóðanna um upplýsingasamfélagið 16.- 18. nóvember
Leiðtogafundur um upplýsingasamfélagið fer fram í Túnis dagana 16. til 18. nóvember 2005.
Leiðtogafundur um upplýsingasamfélagið fer fram í Túnis dagana 16. til 18. nóvember 2005. Leiðtogafundurinn er skipulagður af Sameinuðu þjóðunum og Alþjóðafjarskiptastofnuninni ásamt ríkistjórnum Túnis og Sviss. Yfir 160 þjóðir taka þátt ásamt fjöldmörgum samtökum og aðilum úr atvinnulífi. Leiðtogafundurinn í Túnis er sá seinni af tveimur sem Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir, sá fyrri var haldinn í Genf í Sviss árið 2003.
Til fundanna var stofnað til að fylgja eftir þróunarmarkmiðum þúsaldarsamþykktar Sameinuðu þjóðanna þar sem stefnt er að því að jafna þann mun sem er milli iðnvelda og þróunarlanda í nýtingu upplýsingatækni til hagsbóta fyrir fólk um allan heim. Á Túnisfundinum verður lögð fram samþykkt sem kveður á um hagnýtar aðgerðir til að ná fram þessu markmiði. Málefni fundarins eru víðfeðm og snerta alþjóðafjarskipti, þróunaraðstoð, stjórn Netsins, mannréttindi og tjáningarfrelsi, svo og menntun og menningarlega margbreytni.
Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneyti, fer fyrir íslensku sendinefndinni, og mun hann ávarpa þingið. Íslenskt fyrirtæki, 3-plus, sem framleiðir leiktæki fyrir börn, DVD-Kids, mun taka á móti verðlaunum sem einn af 40 vinningshöfum í nýmiðlunarsamkeppni Sameinuðu þjóðanna. Nánari upplýsingar er að finna á vef World Summit on the Information Society.