Ávarp umhverfisráðherra á Umhverfisþingi
Góðir gestir
Ég býð ykkur velkomin á Umhverfisþing, hið fjórða sem haldið er undir því nafni. Umhverfisþing var fyrst haldið árið 1996, en þar var kynnt fyrsta heildstæða stefnumörkun Íslands á sviði sjálfbærrar þróunar. Umhverfisþing var haldið öðru sinni árið 2001, en þar voru kynnt drög að nýrri stefnumörkun, sem hlaut nafnið Velferð til framtíðar og er hugsuð sem rammi utan um starf stjórnvalda um sjálfbæra þróun fram til ársins 2020. Þegar þriðja Umhverfisþing var haldið fyrir tveimur árum höfðu ákvæði um slík þing verið lögfest í náttúruverndarlögum og skal umhverfisráðherra nú boða til umhverfisþings á tveggja ára fresti. Samkvæmt lögunum verður annað hvert þing helgað náttúruverndarmálum, en hitt verður þá tilefni til víðtækari umræðu um umhverfismál og til þess að uppfæra stefnumörkun um sjálfbæra þróun innan þess ramma sem markaður hefur verið.
Umhverfismál eru ekki mál eins ráðuneytis og sjálfbær þróun er ekki einungis viðfangsefni ríkisstjórnarinnar, heldur þarf allt samfélagið að vinna saman að þessum sameiginlegu markmiðum. Fjölmenn þing af þessu tagi, þar sem fulltrúar frá stofnunum, sveitarfélögum, atvinnulífi, stjórnmálahreyfingum og frjálsum félagasamtökum koma saman til að ræða verkefni nútíðar og framtíðar, eru því dýrmætt tækifæri til að skerpa umræðu og þyngja róðurinn að settum markmiðum.
Undanfarin ár hafa verið okkur Íslendingum hagfelld. Við höfum lengi talist meðal efnaðra þjóða og lífslíkur okkar munu vera næsthæstar í heiminum. Hin síðustu ár hefur efnahagslífið vaxið svo mjög að Íslendingar teljast nú ein allra ríkasta þjóð veraldar og umsvif íslenskra fyrirtækja erlendis vekja eftirtekt og jafnvel undrun. Þetta er af hinu góða, en við þurfum að gæta þess vel að þessi uppbygging sé á traustum grunni. Þar skiptir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og langtíma stefnumótun miklu máli.
Sjálfbær þróun er hugtak sem oft heyrist, en inntak þess vefst fyrir mörgum. Það felur þó í sér tiltölulega einföld og auðskilin sannindi, sem því miður hefur oft reynst erfitt að halda í heiðri. Ef við notum líkingamál fjármálaheimsins, þá þýðir sjálfbær þróun að við megum ekki ganga á höfuðstól náttúrunnar, svo afrakstur komandi kynslóða verði minni en okkar. Mörg dæmi eru um slíkt. Þekktasta dæmið hérlendis er aldalöng eyðing skóga og jarðvegs, þar sem við erum erum í mikilli skuld við landið þrátt fyrir nær aldarlangt skipulegt starf á sviði landgræðslu og skógræktar. Hversu miklu meiri væri arðurinn af landinu í dag ef ekki hefði komið til þessi eyðing gróðurs og jarðvegs?
Sem betur fer finnast mörg dæmi hérlendis um sjálfbæra þróun í verki. Við Íslendingar reynum að stýra sókn í fiskistofna á þann veg að þeir séu ekki ofnýttir og standi undir þróttmikilli atvinnugrein. Þótt fiskveiðistjórnun sé vinsælt þrætuepli, þá hefur okkur tekist betur upp en mörgum öðrum. Í nýju riti með tölulegum vísbendingum um stöðu umhverfismála og sjálfbæra þróun, sem hér liggur frammi á þinginu, sést að afli á tegundum sem lúta óskoruðu forræði Íslendinga fylgir oftast nokkuð vel ráðleggingum vísindamanna. Vísindin eru ekki óskeikul og sveiflur í náttúrunni valda því að við stjórnum ekki stærð stofnanna, þrátt fyrir góðan ásetning. Það er engu að síður einn af hornsteinum sjálfbærrar þróunar að fylgja skuli bestu fáanlegu þekkingu við nýtingu auðlinda. Það væri fróðlegt að sjá sambærilega vísa um vísindalegar ráðleggingar og aflatölur hjá ýmsum þeim ríkjum og ríkjasamböndum sem við berum okkur helst saman við.
Vísindaleg þekking á eðli náttúrunnar og ástandi umhverfisins er nauðsynleg undirstaða ákvarðanatöku á fleiri sviðum en fiskveiðum. Við Íslendingar eigum góða vísindamenn og stofnanir sem sinna rannsóknum og vöktun, en hér býr fámenn þjóð í stóru landi og við höfum því ekki náð að kortleggja náttúru landsins og hafsins í kring um það eins vel og við myndum vilja. Vaxandi áhugi og kraftur í umhverfisrannsóknum á heimsvísu, ekki síst á Norðurslóðum, ætti að vera okkur Íslendingum hvati til að efla slíkar rannsóknir heima fyrir og tengjast alþjóðlegum rannsóknarverkefnum enn betur. Ég mun því eftir megni leitast við að hafa áhrif á að Vísinda- og tækniráð gefi umhverfisrannsóknum enn meira vægi. Í því kann að felast margvíslegur ávinningur ekki aðeins fyrir íslenskt vísindasamfélag, heldur fyrir þjóðfélagið í heild.
Í ritinu um tölulegar vísbendingar er að finna ýmislegan fróðleik um ástand mála varðandi umhverfið og auðlindanýtingu. Það er einn helsti tilgangur umhverfisþings að skoða stöðu mála og reyna að meta hvort miðað hafi í rétta átt eða ekki varðandi sett markmið. Tölur og gröf segja ekki alla söguna, en það er þó nauðsynlegt að byggja umræðu eins og kostur er á hlutlægum staðreyndum. Það auðveldar alla stefnumörkun og forgangsröðun verkefna að eiga greiðan aðgang að góðum upplýsingum, sem segja okkur hvort við þokumst nær eða fjær settu marki. Í raun má halda því fram að slíkir vísar séu forsenda þess að við getum sett okkur mælanleg markmið í umhverfismálum og lagt síðan hlutlægt mat á árangur okkar. Umhverfisráðuneytið mun því halda áfram að þróa og bæta slíka vísa í framtíðinni, í samvinnu við önnur ráðuneyti og aðila innan og utan stjórnkerfisins.
Eins og kunnugt er felur núverandi stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun í sér 17 megin markmið og liggur frammi á þinginu samantekt um það hvernig okkur hefur miðað s.l. þrjú ár að feta okkur að þeim markmiðum. Meginumfjöllunarefni þessa þings verður þó að horfa fram á veg og leggja nýjar áherslur eða skerpa á eldri áherslum og því liggja fyrir þinginu drög að megináherslum næstu ára varðandi þau 17 markmið sem lagt var upp með í stefnumörkun stjórnvalda um sjálfbæra þróun. Ég ætla ekki að fara yfir þessar áherslur, en staðnæmast aðeins við nokkur atriði sem ég tel að muni bera hátt í nánustu framtíð og þar sem ég tel að leiðsögn sjálfbærrar þróunar geti nýst okkur vel.
Í umræðu um umhverfismál hér á landi hefur náttúruvernd borið hátt. Þar hefur verið stigið gott skref með tilkomu heildstæðrar náttúruverndaráætlunar, sem byggir á markvissri aðferðarfræði og forgangsröðun. Stærsta verkefnið framundan er stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar, sem verður hinn stærsti í Evrópu,en ríkisstjórnin hefur fallist á tillögur mínar að frekari undirbúningi málsins. Hér á þessu þingi verður ekki sérstaklega fjallað um hinn væntanlega þjóðgarð eða náttúruvernd, en það er rétt að skoða náttúruvernd og þjóðgarða í samhengi sjálfbærrar þróunar. Náttúra Íslands hefur mikið og vaxandi aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Spár gera ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna til landsins og tilkoma Vatnajökulsþjóðgarðs kann að herða enn á þeirri þróun. Þjóðgarðurinn verður nafntogaður ekki eingöngu stærðar sinnar vegna, heldur verður hann væntanlega þekktur sem einn þeirra staða á jörðinni þar sem náttúruunnendur geta gleggst séð sköpunaröfl jarðar að verki. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er því í mínum huga bæði náttúrvernd og atvinnusköpun og í raun afar mikilvægt framlag til að styrkja byggð í nágrenni þjóðgarðsins. Friðlýsing í þágu náttúruverndar getur því verið góð auglýsing og leiðir yfirleitt til vaxandi umferðar ferðamanna. En hvernig tökumst við á við aukinn ágang? Hvernig getum við varist því að vaxandi fjöldi ferðamanna valdi skaða á þeim gæðum sem þeir sækjast eftir? Í þessum drögum að áherslum er gert ráð fyrir að reynt verði að auka þolmörk ferðamannastaða, meðal annars með því að efla fræðslu og gera átak í gerð göngustíga. Á þann hátt geta efling náttúruverndar og uppbygging ferðaþjónustu unnið saman.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru mjög til umræðu og í lok mánaðarins hefst í Montreal í Kanada alþjóðlegur fundur um loftslagsmál og losun gróðurhúsalofttegunda, en fundurinn er fyrsti aðildarríkjafundur Kýótó-bókunarinnar sem nú hefur öðlast gildi. Er hægt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda án þess að hægja um leið á hjólum efnahagslífsins hjá ríkum þjóðum jafnt sem fátækum? Það er vissulega þrautin þyngri, en við Íslendingar getum lagt okkar lóð á vogarskálar í þessu einu margslungnasta og erfiðasta verkefni sem við blasir á þessari öld. Nýting endurnýjanlegrar orku er að margra mati helsti lykillinn að lausninni. Við Íslendingar eigum gnótt endurnýjanlegra orkulinda, og gætum ef tæknin leyfði fullnægt orkuþörf okkar með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum, þótt vissulega séu takmarkanir á nýtingu þeirra vegna náttúruverndarsjónarmiða. En íslensk þekking og hugvit geta verið enn stærra framlag til loftslagsverndar á heimsvísu en virkjanir hérlendis. Hér hafa verið sett á fót tilraunaverkefni um nýtingu vetnis og íslenskt fyrirtæki hefur getið sér gott orð vegna tækni til að draga úr eldsneytisnotkun í skipum. Á sviði jarðhitanýtingar eru Íslendingar leiðandi á heimsvísu. Starf Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hér á Íslandi hefur skilað miklum árangri víða um heim, eins og flestum er kunnugt. Ég átti þess kost á þessu ári að skoða jarðhitavirkjun í Slóvakíu, sem íslensk fyrirtæki hafa komið á fót og að vera viðstödd undirskrift samnings um hitaveitu í Kína, sem verður fullbyggð hin stærsta í heiminum. Jarðhiti er raunhæfur kostur fyrir hundruð milljóna manna víða um heim, sem búa annað hvort við skort á rafmagni eða mengandi orkugjafa. Samt ber nýtingu jarðhita enn sem komið er lítið á góma í alþjóðlegri umræðu um endurnýjanlegar orkulindir. Íslensk stjórnvöld vilja bæta úr því og hyggjast kynna jarðhitanýtingu meðal annars á komandi fundum Nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem næstu tvö ár mun einkum fjalla um orkumál og loftslagsmál.
Íslensk stjórnvöld munu einnig halda áfram baráttu sinni gegn mengun hafsins, en sú barátta hefur á margan veg borið ávöxt á undanförnum árum. Má í því sambandi bæði nefna Alþjóðlega framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengu sjávar frá landi og Stokkhólmssamninginn um lífræn þrávirk efni. Á þessu ári fór fram fyrsta aðildarríkjaþing Stokkhólms-samningsins um aðgerðir gegn mengun af völdum þrávirkra lífrænna efna, en Ísland mun berjast fyrir því að fleiri efni verði tekin inn í þann samning en þau tólf sem þar eru tilgreind nú. Barátta Íslands í þessum efnum er enn trúverðugri vegna umbóta okkar í fráveitumálum á undanförnum árum og vegna góðs árangurs við söfnun spilliefna til ábyrgrar förgunar, sem ella gætu borist út í umhverfið og endað í hafinu.
Mengun er lítil hér á Íslandi miðað við nágrannaríki okkar, hvort sem litið er til hafsins, ferskvatnsins eða andrúmsloftsins. Þó eru hér nokkur vandamál sem taka þarf á, sérstaklega á þéttbýlissvæðinu hér við Faxaflóa og það verður eitt af verkefnum næstu ára að greina betur helstu uppsprettur loftmengunar, meta áhrif hennar á heilsu fólks og efla aðgerðir til að draga úr heilsuspillandi mengun andrúmsloftsins, ekki síst af völdum rykagna.
Athafnir mannsins geta skaðað náttúruna, en fólki er einnig hætta búin af völdum náttúruaflanna, eins og við höfum óþyrmilega verið minnt á síðustu misseri. Varnir gegn náttúruvá eru eitt af markmiðunum í stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun. Síðastliðinn áratug, eftir snjóflóðin mannskæðu á Vestfjörðum, höfum við skipulega byggt upp varnir gegn ofanflóðum. Sú aðferðarfræði sem þar hefur verið notuð getur gagnast okkur við að búa okkur undir annars konar náttúruhamfarir og ég tel tímabært að við hugum nú að skipulegu hættumati á annarri náttúruvá í landinu.
Það frumkvöðlastarf sem Veðurstofa Íslands hefur unnið á sviði jarðskjálftavöktunar hefur vakið athygli víða um heim og styður okkur í aðgerðum á því sviði hér heima fyrir. Mér þótti því einkar ánægjulegt í opinberri heimsókn forseta Íslands til Kína s.l. vor að undirrita samstarfssamning milli landanna á sviði jarðskjálftamála.
Góðir gestir,
Umræðan á alþjóðavettvangi um umhverfismál og sjálfbæra þróun einkennist oft af svartsýni. Stór hluti mannkyns býr við fátækt og örbirgð og ekki er talið að hin góðu markmið Þúsaldaryfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna um bætt lífskjör náist. Sókn ýmissa ríkja til betri lífskjara - ekki síst risanna Kína og Indlands - er heldur ekki þrautalaus. Hún veldur miklu álagi á umhverfi og auðlindir og örum hagvexti fylgir oft mikil mengun. Það er vissulega óskandi að hagvöxtur í þróunarríkjunum muni ekki leiða af sér sömu vandamálin og hann hafði í för með sér í iðnríkjunum, heldur geti þróunarríkin nýtt sér þá reynslu sem við höfum öðlast í að draga úr umhverfisáhrifum í okkar daglegu lífi. Iðnríkin eiga þó mörg fyrirsjáanlega í erfiðleikum við að mæta kröfum Kýótó-bókunarinnar. Framleiðslutengdar niðurgreiðslur í landbúnaði hafa víða leitt til mengunar grunnvatns og strandsvæða vegna mikillar áburðarnotkunar og eru auk þess markaðshindrun fyrir fátæk lönd. Það er vissulega hægt að tína til mörg dæmi ef menn vilja draga upp dökka mynd af veröld þar sem fátækt, misrétti og ágangur á gæði jarðar ógnar lífsgæðum komandi kynslóða.
En þau eru vissulega líka til mörg dæmin um að miði í rétta átt. Fátækt og hungur í heiminum fer minnkandi, þótt það sé ekki eins hratt og við vildum. Í flestum ríkum löndum hefur dregið úr mengun, sem bæði er jákvætt í sjálfu sér og gefur okkur líka von um að eftir því sem dregur úr fátækt annarra landa hafi þau betur efni á að huga að umhverfismálum og draga úr mengun hjá sér. Fjölþjóðleg samvinna hefur eflst og skilar víða árangri. Þannig hefur notkun ósoneyðandi efna minnkað mjög eftir að gripið var til alþjóðlegra aðgerða til verndar ósonlaginu.
Það sem skiptir mestu máli er að halda áfram að vinna að settu marki, en láta ekki bugast af úrtölum og bölsýni. Við Íslendingar búum við öfundsvert hlutskipti. Ekki aðeins vegna þess að hér er efnahagslíf í blóma, mikil lífsgæði og lítil mengun. Við búum líka við það hlutskipti að geta enn bætt okkur og eflt allar þrjár stoðir sjálfbærrar þróunar á sama tíma: efnahagslega og félagslega velferð, auk verndar umhverfisins. Við eigum að geta dregið enn úr mengun, eflt náttúruvernd og grætt upp illa farið land, samtímis því sem við byggjum upp nýjar atvinnugreinar og hlúum að þeim sem fyrir eru. Við höfum einnig ýmislegt fram að færa á alþjóðavettvangi á sviði sjálfbærrar þróunar.
Í þeirri leiðsögn um sjálfbæra þróun sem ríki jarðar hafa sett sér, meðal annars á heimsfundunum í Ríó árið 1992 og Jóhannesarborg árið 2002, er mikil áhersla lögð á að virkja sem flesta til þátttöku í þeim verkefnum sem við blasa. Í þeim drögum að megináherslum sem hér liggja fyrir og í þeim fjölbreyttu fyrirlestrum og umræðum sem verða haldnir hér í dag og á morgun, er aðeins tæpt stuttlega á hinum fjölmörgu viðfangsefnum sem falla undir þetta víðfeðma og margnefnda hugtak, sjálfbæra þróun. Við munum ekki að ná að kafa til botns í þeim á þessu þingi og ekki að smíða ýtarlega framkvæmdaáætlun úr þeim punktum sem hér eru settir fram til umræðu. Sú er heldur ekki ætlunin.
Það er von mín að þau skjöl sem hér eru lögð fram og sá fróðleikur sem fram kemur í erindunum verði til að styrkja skilning manna á viðfangsefninu og skapa umræður sem ná út fyrir þessa veggi og fram yfir þessa tvo daga sem skapa ramma þingsins. Þær umræður sem hér verða á morgun um drög að megináherslum næstu ára hvað varðar markmið stefnumörkunarinnar sem hlotið hefur heitið Velferð til framtíðar, munu verða nýttar til að fylla inn í þann ramma sem þar hefur verið markaður. Einnig getið þið sem hér eruð, og aðrir sem vilja, sent skriflegar athugasemdir og tillögur til umhverfisráðuneytisins fram til 15. janúar 2006. Síðan verður farið yfir þær athugasemdir og ég stefni að því að leggja fyrir ríkisstjórn til samþykktar nýjar áherslur í stefnumörkun okkar um sjálfbæra þróun snemma næsta vor. Við munum svo hittast aftur í framtíðinni á þingum sem þessum til þess að skoða hvernig miðar og endurmeta forgangsmál og áherslur. Lifandi umræða í fjölmiðlum, hjá atvinnulífinu, í frjálsum félagasamtökum, í skólakerfinu og jafnvel hjá fjölskyldum um hversdagsleg verkefni eins og úrgang og daglegar samgöngur, er hreyfiafl góðra verka, ekki síður en ákvarðanir stjórnvalda.
Ykkar verk, sem hingað er boðið, er því ekki einungis að veita stjórnvöldum aðhald, heldur líka að virkja það fólk sem ykkur stendur næst. Virkjun orku, jafnvel þótt hún sé endurnýjanleg, hefur bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar, eins og við fáum væntanlega að heyra um nú á eftir frá aðstandendum Stubbalækjavirkjunar á Snæfellsnesi. Virkjun fólks til þarfra verka í þágu uppbyggingar og umhverfisverndar er hins vegar aðeins af hinu góða og er lykillinn að því að skila betra landi og betri jörð til þeirra sem koma á eftir okkur, en um leið leggja betri grunn að varanlegri velferð.
Megið þið hafa bæði gagn og ánægju af þessu fjórða Umhverfisþingi.
Ég þakka áheyrnina.
Talað orð gildir