Fundur ráðherraráðs Evrópska efnahagssvæðisins
Nr. 031
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Geir H. Haarde utanríkisráðherra sótti í dag fund ráðherraráðs Evrópska efnahagssvæðisins í Brussel. Fundinn sátu ráðherrar frá Noregi, Liechtenstein, Íslandi, Austurríki og Bretlandi auk fulltrúa annarra ESB ríkja.
Á fundinum var rætt um framkvæmd EES samningsins og var samdóma álit aðila að rekstur samningsins gangi mjög vel. Utanríkisráðherra Liechtenstein, Rita Kieber-Beck talsmaður EFTA ríkjanna, gerði grein fyrir afstöðu ríkjanna til hinna ýmsu verkefna og áætlana ESB. Lagði ráðherrann fyrir hönd EFTA m.a. áherslu á mikilvægi þátttöku EFTA ríkjanna í undirbúningi löggjafar á vettvangi ESB. Einnig var af EFTA hálfu m.a. lögð áhersla á nauðsyn þess að aflétta banni við notkun á fiskimjöli í fóður fyrir jórturdýr og gerð grein fyrir undirbúningi að úthlutun styrkja úr þróunarsjóði EFTA.
Af hálfu utanríkisráðherra Íslands var sérstök áhersla lögð á að ESB tæki tillit til hagsmuna allra aðildarríkja EES við gerð loftferðasamninga við önnur ríki.
Í tengslum við fundinn áttu fulltrúar EFTA ríkjanna og aðildarríkja ESB með sér pólitískt samráð um baráttuna gegn hryðjuverkum, málefni ÖSE og uppbyggingarstarf í Afríku.
Einnig sótti utanríkisráðherra í dag ráðherrafund þeirra ríkja sem standa að áætlun um málefni norðurslóða, “Norðlægu víddinni”. Ráðherrarnir samþykktu, undir forystu Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, nýja framkvæmdaáætlun um þessi málefni sem taka mun gildi 2007. Fundinn sátu ráðherrar og fulltrúar frá aðildarríkjum ESB, Rússlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Noregi og Íslandi auk alþjóðlegra fjármálastofnana og samtaka.
Fyrr í dag átti utanríkisráðherra tvíhliða fund með utanríkisráðherra Noregs, Jonas Gahr Störe, þar sem meginumræðuefnið var afstaða ríkjanna til Doha-viðræðnanna um aukið frelsi í heimsviðskiptum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Auk þess ræddu ráðherrarnir ýmis málefni EES og EFTA.
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, og
Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs