Hoppa yfir valmynd
21. nóvember 2005 Matvælaráðuneytið

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum - endurskoðun samþykkta.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 26/2005

Fréttatilkynning

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum – endurskoðun samþykkta.

Í dag voru undirritaðar nýjar samþykktir fyrir úrskurðarnefnd í vátryggingamálum en nefndin starfar samkvæmt samkomulagi viðskiptaráðuneytisins, Neytendasamtakanna og Sambands íslenskra vátryggingafélaga.

Sú endurskoðun sem nú fór fram var einkum til komin vegna nýrra laga um vátryggingarsamninga sem taka munu gildi þann 1. janúar 2006. Í lögunum er úrskurðarnefndarinnar getið og því var nauðsynlegt að uppfæra samþykktir nefndarinnar í samræmi við lögin auk almennrar endurskoðunar.

Engin ástæða var til stakkaskipta á fyrirliggjandi samþykktum en rétt er að vekja athygli á eftirfarandi breytingum:

¨ Starfssvið nefndarinnar víkkar út þannig að nefndin úrskurðar um ágreining sem fellur undir ákvæði laga um vátryggingarsamninga auk bótaskyldu.

¨ Felld er niður skylda málskotsaðila til að skjóta máli fyrst til tjónanefndar vátryggingafélaganna áður en því er skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

¨ Bregðist vátryggingafélag ekki við skriflegri kröfu málskotsaðila innan þriggja vikna þarf málskotsaðili ekki að bíða svars vátryggingafélagsins lengur heldur er honum heimilt að leita beint með málið til úrskurðarnefndar.

¨ Nefndin skal nú birta alla úrskurði sína ásamt öðrum upplýsingum um starfsemi nefndarinnar í stað birtingu samantektar úrskurða áður.

¨ Ákveði vátryggingafélag að hlíta ekki úrskurði nefndarinnar ber því að tilkynna nefndinni um þá ákvörðun sína innan tveggja vikna og færa rök fyrir henni. Nýmælið hér er krafan um rökstuðning.

¨ Hafi vátryggingafélag tilkynnt að það muni ekki hlíta úrskurði en breytir síðan þeirri afstöðu er því skylt að tilkynna þá ákvörðun til nefndarinnar.

¨ Skilgreint er hverjir geta skotið máli til nefndarinnar og er sá aðili sem beinir máli til nefndarinnar nefndur ,,málskotsaðili" í stað ,,neytanda" áður.

¨ Skýrari reglur eru um greiðslu málskotsgjalds.

Nýju samþykktirnar taka gildi 1. janúar 2006 og málskotsgjald til nefndarinnar verður kr. 6.000.

Reykjavík, 21. nóvember 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta