Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2005 Matvælaráðuneytið

24. ársfundur Norð-Austur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC

Fréttatilkynning

Föstudaginn 18. nóvember síðastliðinn lauk í London 24. ársfundi Norð-Austur Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, NEAFC. Á fundinum var m.a. fjallað um stjórn veiða á úthafskarfa, norsk-íslenskri síld, kolmunna og makríl fyrir árið 2006.

Á fundinum var kynnt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins, ICES, um stjórnun veiða á úthafskarfa. Í ráðgjöfinni felst að haga eigi stjórn veiðanna með þeim hætti að tekið sé tillit til þess að um tvö aðskilin veiðisvæði sé að ræða, annað innan og við lögsögumörk Íslands og hitt sunnar og vestar (oft kallað "neðri karfi" og "efri karfi"). Eins og undanfarin ár lagði ICES til að veiðum verði stjórnað þannig að ekki væri hætta á að karfi yrði ofveiddur á öðru hvoru veiðisvæðinu, en stjórnun NEAFC hefur ávallt farið með karfann sem eina stjórnunareiningu. Ísland lagði á það ríka áherslu á fundinum að stjórnun veiðanna grundvallist á tveimur aðskildum stjórnunareiningum einsog Ísland hefur stjórnað sínum veiðum einhliða á sl. árum.

Á fundinum náðist samstaða meðal Íslands og Danmerkur, fyrir hönd Grænlands og Færeyja, og ESB um stjórnunarráðstafanir varðandi úthafskarfaveiðar árið 2006 á vettvangi  NEAFC sem samþykktar voru af Noregi en mótmælt af Rússlandi. Fela þær í sér að heildaraflamark var ákveðið 62.416 tonn sem er lækkun um 12.784 tonn eða 17%. Jafnframt var samþykkt að heildarveiðin mætti ekki verða meiri en sem nemur 80% af heildaraflamarkinu fyrir 1. júlí 2006. Markmið tímaskiptingarinnar er að draga úr hættu á ofveiði úr neðri stofninum. Er þetta í fyrsta skipti sem það fæst viðurkennt á vettvangi NEAFC að stjórnunarráðstafanir þurfi að taka mið af því að um tvö aðskilin veiðisvæði sé að ræða. Ísland vildi ganga lengra, bæði hvað varðar lækkun á heildaraflamarki sem og aðskilnað milli veiðisvæða, en sætti sig við þessa niðurstöðu, fyrir árið 2006, sem málamiðlun.

Norðmenn hafa undanfarin ár haldið á lofti kröfu um hærri hlutdeild sér til handa en þegar samningar voru í gildi um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og á því varð ekki breyting í ár. Önnur strandríki (Ísland, Noregur, Færeyjar, Rússland og ESB) hafa ekki fallist á kröfu Norðmanna og því hefur ekki tekist að gera strandríkjasamning um síldveiðar fyrir árið 2006. Því var engin stjórnunarráðstöfun um síld samþykkt á ársfundi NEAFC að þessu sinni. Fulltrúar strandríkjanna ræddu um að rétt væri að fylgja markmiðum langtímastjórnunar sem samþykkt var 1997 við ákvörðun heildaraflamarks. Myndi það fela í sér að strandríkin miðuðu við 732.000 tonna heildaraflamark þegar þau setja sér stjórnunarráðstafanir fyrir árið 2006.

Drög að samkomulagi um skiptingu veiðiheimilda í kolmunna, sem samþykkt voru á strandríkjafundi í Kaupmannahöfn 30.-31. október, liggja fyrir.  Búist er við því að á næstu vikum verði gengið frá útfærsluatriðum samkomulagsins, sem ekki varða Ísland, í tvíhliðaviðræðum. Varðar það aðgang að veiðisvæðum.

Samþykkt var tillaga um stjórn veiða á makríl, sem Ísland mótmælti. Byggjast mótmæli Íslands á því að í samkomulaginu er ekki tekið tillit til stöðu Íslands sem strandríkis.

Á fundinum náðist efnislegt samkomulag um breytingar á stofnsamningi NEAFC. Með breytingunum verður NEAFC gefið skýrara umboð til að fjalla um og ákveða stjórnunarráðstafanir til verndunar vistkerfi hafsins, s.s. vernd viðkvæmra hafsvæða. Var vinnunefnd falið að móta framtíðarreglur á grunni þessarra breytinga varðandi vernd viðkvæmra hafsvæða á vettvangi NEAFC. Jafnframt var samþykkt að á árinu 2006 verði framkvæmt frammistöðumat á árangri og starfi NEAFC en á alþjóðlegum vettvangi hefur komið fram krafa um að svæðisbundnar fiskveiðistofnanir láti framkvæma slíkt frammistöðumat.

Mikið var fjallað um ólöglegar og óábyrgar veiðar á samningsvæði NEAFC og mikilvægi þess að unnið sé áfram og frekar að því að koma í veg fyrir slíkar veiðar. Unnið er að því að samræma reglur, aðgerðir og að auka samstarf um að nýta betur hafnríkislögsögur aðildarríkjanna í baráttunni gegn þessum veiðum  en brögð hafa verið á því að skip sem uppvís hafa orðið að ólöglegum og óábyrgum veiðum hafi legið langdvölum í höfnum aðildaríkja óáreitt.

Meðan á ársfundinum stóð hittust á fundi formenn sendinefnda NEAFC og OSPAR samningsins um vernd umhverfis sjávar á Norð-Austur Atlantshafi þar sem til umfjöllunar var frekara samstarf milli þessarra stofnana.

Formaður íslensku sendinefndarinnar var Stefán Ásmundsson skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu. Sé óskað frekari upplýsinga er bent á Stefán Ásmundsson í síma 862-3637.

 

 

Sjávarútvegsráðuneytinu, 21. nóvember 2005

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta