Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundur umhverfisráðherra ríkja Eystrasaltsráðsins

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra situr á morgun, miðvikudaginn 23. nóvember, fund umhverfisráðherra þeirra ríkja sem aðild eiga að Eystrasaltsráðinu í Stokkhólmi. Fundinn situr einnig framkvæmdastjóri umhverfismála Evrópusambandsins, en framkvæmdastjórnin hefur nýlega lagt fram stefnumótun og tillögu að tilskipun um málefni hafsins.

Tilefni fundarins er alvarleg staða umhverfismála í Eystrasalti. Eins og kunnugt er urðu stór hafsvæði í Eystrasalti fyrir miklum þörungablóma síðastliðið sumar, sem rakið er að stærstum hluta til mengunar frá landi, einkum landbúnaði og vegna skólps frá íbúabyggð. Norræna ráðherranefndin og Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (Nefco) sem Ísland á aðild að hafa á undanförnum árum stutt aðgerðir til að endurheimta vistkerfi Eystrasaltsins. Á fundinum verður m.a. fjallað um hvernig ná megi betri árangri í verndun Eystrasaltsins.

Á fundinum mun umhverfisráðherra leggja áherslu á nauðsyn þess að sjálfbær þróun sé höfð að leiðarljósi við stjórn umhverfismála Eystrasaltsins, enda hagsmunir Íslands sem strandríkis miklir á þessu sviði. Umhverfisráðherra leggur áherslu á vistkerfisnálgun í Eystrasaltinu, eins og stefnt er að í hafinu í kringum Ísland með stefnumótun um málefni hafsins frá því í fyrra. Með vistkerfisnálgun er lögð áhersla á vistkerfið í heild sinni, verndun líffræðilegrar fjölbreytni, varnir gegn mengun hafsins og verndun hafsvæða. Þá leggur umhverfisráðherra áherslu á auknar rannsóknir og vöktun, auk þess að fleiri komi að verndun Eystrasaltsins og að vinnu við að móta stefnu um vistkerfisnálgun fyrir Eystrasaltið verði lokið sem fyrst.

Fréttatilkynning nr. 31/2005

Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta