Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2005 Innviðaráðuneytið

Mikil tækifæri felast í auknu samstarfi á milli Íslands og Kína á sviði ferðamála

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hitti ferðamálaráðherra Kína Hr. Shao Qiwei á fundi í Kunming í gær.

Sturla Böðvarsson og Shao Qiwei
Sturla_Bodvarsson_og_Shao_Qiwei

Á fundinum lögðu ráðherrarnir áherslu á að efla þyrfti frekar grunn að samskiptum þjóðanna á sviði ferðamála. Þá ræddu ráðherrarnir möguleg skipti sérfræðinga í ferðaþjónustu á milli landanna. Ferðaþjónustu á Íslandi stæði þannig til boða að fá kynningu frá kínverskum ferðamálasérfræðingum um hvernig best skuli staðið að móttöku ferðamanna frá Kína. Hr. Shao Qiwei sagði gríðarleg tækifæri felast í auknum fjölda ferðamanna frá Kína fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi.

Fundurinn var haldinn í tengslum við stærstu ferðakaupastefnu í Asíu og var Sturla Böðvarsson þar sérstakur heiðursgestur. Kaupstefnan var opnuð formlega í dag en þar kynna fimm íslensk fyrirtæki það sem þau hafa uppá að bjóða.

Fund ráðherranna sátu Eiður Guðnason sendiherra, fulltrúar Icelandair og Avion Group auk flugmálastjóra, ferðamálastjóra og embættismanna úr samgönguráðuneytinu.

Hvað aukin tækifæri varðar má geta þess að spá Alþjóða ferðamálasamtakanna, World Tourism Organization, gerir ráð fyrir mikilli fjölgun ferðamanna í heiminum næstu áratugi. Árið 2020 er því spáð að fjöldi ferðamanna í heiminum verði ríflega 1.500 milljónir, fjórðungur þeirra mun koma frá Asíu og Kyrrahafslöndunum. Ef spá samtakanna gengur eftir mun kínverskum ferðamönnum fjölga um helming frá því sem nú er, eða úr 20 milljónum árið 2005 í 40 milljónir árið 2020.
Þrátt fyrir fjölgun ferðamanna frá Kína til Íslands undanfarin ár þá kemur einungis lítill hluti kínverskra ferðamanna hingað til lands. Á árinu sem senn er á enda hafa 8.000 kínverskir ferðamenn lagt leið sína til Íslands. Tækifærin eru því gríðarleg.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum