Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Evrópa stefnir á að verða leiðandi í notkun upplýsingatækni í heiminum

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 22/2005

Ráðherraráðstefna um rafræna stjórnsýslu fer fram dagana 24. og 25. nóvember í Manchester á Englandi.

Ráðstefnan ber yfirskriftina Umbreyting í opinberri þjónustu (e. Transforming Public Services) og er hún skipulögð af Evrópusambandinu undir forystu Breta. Fulltrúum aðildarríkja Evrópusambandsins var boðið til ráðstefnunnar ásamt fulltrúum EFTA-ríkja og þeirra ríkja sem þegar hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu.



Halla Björg Baldursdóttir og Ármann Kr. Ólafsson

Frá ráðstefnunni: Halla Björg Baldursdóttir og Ármann Kr. Ólafsson


Á ráðstefnunni var samþykkt sameiginleg yfirlýsing sem ætlað er að styðja við áætlun Evrópusambandsins fyrir upplýsingasamfélagið árið 2010.

Forsenda hennar er sú almenna skoðun að tæknileg vandamál séu ekki lengur hindrun varðandi notkun upplýsingatækni í stjórnsýslu. Sett voru fram markmið sem er ætlað að gera Evrópu leiðandi í notkun upplýsingatækni í heiminum ef þau ná fram að ganga. Þau varða aðgengi allra borgara að rafrænni stjórnsýslu, hagræðingu og skilvirkni í stjórnsýslunni, bætta þjónustu sem miðast við þarfir sérhvers einstaklings og að rafræn skilríki verði gjaldgeng innan alls evrópska efnahagssvæðisins.

Þetta er þriðja ráðherraráðstefnan um rafræna stjórnsýslu sem Evrópusambandið stendur fyrir og einn helsti viðburðurinn sem Bretar standa fyrir í formennskutíð sinni innan sambandsins. Um 1000 þátttakendur eru á ráðstefnunni, bæði fulltrúar hins opinbera og atvinnulífsins.

Markmiðið með ráðstefnunni er að fara yfir það helsta sem hefur áunnist í rafrænni stjórnsýslu í Evrópu og skiptast á upplýsingum. Markmiðið er einnig að skapa vettvang til að ræða framtíðaráætlanir um rafræna stjórnsýslu hins opinbera. Sérstaklega er fjallað um þau áhrif og þann ávinning sem markviss stefna um breytta og bætta þjónustu getur haft fyrir stjórnsýsluna, fyrirtækin og hinn almenna borgara.

Á ráðstefnunni voru afhent verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í rafrænni stjórnsýslu (eEurope eGovernment Awards) og að þessu sinni runnu þau til Danmerkur, Hollands, Írlands og Póllands.

Ármann Kr. Ólafsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, fer fyrir íslensku sendinefndinni en hún er einnig skipuð Höllu Björgu Baldursdóttur verkefnastjóra í rafrænni stjórnsýslu hjá forsætisráðuneytinu, Haraldi Bjarnasyni sérfræðingi í fjármálaráðuneytinu og Indriða H. Þorlákssyni ríkisskattstjóra.

Sjá nánar um ráðstefnuna á vef hennar http://www.egov2005conference.gov.uk/.



Fjármálaráðuneytinu 25. nóvember 2005

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum