Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samanburður á þjóðhagsspám

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Á undanförnum árum hefur innlendum aðilum fjölgað sem fjalla reglulega um stöðu og horfur efnahagsmála. Auk fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans hafa greiningardeildir viðskiptabankanna og ASÍ gefið út þjóðhagsspár.

Mat fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans grundvallast á vinnu við ítarleg þjóðhagslíkön en mat ASÍ og greiningardeildanna byggist á smærri reiknilíkönum. Þá byggjast spárnar oft á mismunandi forsendum um framvinduna og þar af leiðandi kemur það ekki á óvart að eitthvað skilji á milli í útkomu einstakra aðila.

Sem dæmi má nefna að Seðlabankinn gengur í sinni grunnspá út frá föstum stýrivöxtum og óbreyttu gengi íslensku krónunnar eins og staðan er þegar spáin er gerð. Sömuleiðis eru spár fjármálaráðuneytisins um samneyslu og fjárfestingu ríkissjóðs skilyrtar í samræmi við langtímaáætlun fjárlaga til fjögurra ára í senn. Slíkar forsendur verður að hafa í huga þegar spárnar eru bornar saman.

Spár um þróun hagvaxtar 2005-2010

Á yfirstandandi hausti hafa fimm aðilar gefið út þjóðhagsspár sem ná fram til ársins 2007 og nokkrar þeirra ná til ársins 2010.

Hvað snertir hagvöxt ber aðilum vel saman í áætlunum fyrir árið 2005. Flestir spá um 6% hagvexti en greiningardeild Landsbankans sker sig úr með um 7,5% vöxt. Hins vegar skilur meira í milli hjá aðilum fyrir árin 2006-2010 eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd. Íslandsbanki spáir t.d. samdrætti árið 2007 á meðan aðrir aðilar spá minnkandi hagvexti.

Meðal þeirra forsendna sem miklu máli skipta fyrir hagvöxtinn er spá um þróun gengis íslensku krónunnar. Flestir reikna með því að gengið fari lækkandi frá næsta ári, en hér verður að ítreka forsendu Seðlabankans um óbreytt gengi. Greiningardeild Íslandsbanka sker sig hins vegar nokkuð úr með því að spá kröftugu gengissigi árið 2007. Það skal tekið fram að spá um gengisþróun er háð hvað mestri óvissu af þeim þáttum sem falla undir efnahagsspágerð.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta