Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2005 Matvælaráðuneytið

Byggðastofnun - framtíðarstarfsemi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 29/2005

Fréttatilkynning

Starfshópur sem falið var að fjalla um fjárhagsvanda Byggðastofnunar og móta tillögur um framtíðarstarfsemi hennar hefur nú lokið störfum. Tillögur hans eru í meginatriðum þessar:

Starfshópurinn leggur áherslu á að til skemmri tíma, á meðan ekki komi frekari athugasemdir frá Fjármálaeftirlitinu, haldi lánastarfsemi stofnunarinnar áfram með hefðbundnum hætti. Jafnframt verði unnið að ráðstöfunum í lengri tíma. Þá m.a. skoðað hvort til greina komi afskriftir skulda eða bein framlög ríkisins til styrktar stofnuninni.

Samhliða þessu þarf að gera grundvallarbreytingar á fjármögnunarstarfsemi Byggðastofnunar þannig að hún standi undir þeim rekstri án fjárstuðnings ríkisins. Þróuð verði fjármögnunartæki og vinnubrögð sem miða að því að efla samstarf við fjármálafyrirtæki með því markmiði að auðvelda fjármögnun atvinnustarfsemi á landsbyggðinni. Í þessu sambandi koma ýmsar aðferðir til greina, t.d. ábyrgðir.

Stuðlað verði að auknum árangri á sviði byggðamála með skýrri stefnumótun stjórnvalda, ásamt bættri og skýrari forgangsröðun verkefna. Nauðsynlegt er að efla og þróa faglega hæfni, einfalda stjórnun og skýra ábyrgð í rekstri Byggðastofnunar. Samstarf við atvinnuþróunarfélögin og aðra aðila sem vinna að atvinnuþróun og nýsköpun verði eflt. Nýta þarf vaxtasamninga sem tæki til að efla samstarf á þessu sviði.

Sérstaklega verði hugað að frekari samhæfingu eða samþættingu starfsemi Byggðastofnunar, Impru, Iðntæknistofnunar, Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, vaxtarsamninga og annarrar atvinnuþróunarstarfsemi á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta með það að markmiði að tryggja sterka stöðu og sýnileika byggðamála í þeirri starfsemi sem ætlað er að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun.

Í framhaldi af þessari niðurstöðu starfshópsins og eftir umfjöllun um fjárhagsvanda Byggðastofnunar í ríkisstjórn mun iðnaðar- og vipskiptaráðuneytið nú þegar hefjast handa við eftirfarandi:

Unnið verði að því að sameina atvinnuþróunarstarfsemi iðnaðarráðuneytisins.

Þróaðar verði nýjar fjármögnunarleiðir m.a í samstarfi við banka og önnur fjármálafyrirtæki.

Að störfum á Sauðárkróki verði ekki fækkað og atvinnuþróunarstarfsemi á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri verði efld.

Ráðuneytið hefur gert starfsmönnum Byggðastofnunar grein fyrir stöðu málsins og þeirra vinnu sem framundan er. Þá mun ráðherra rita stjórn og forstjóra Byggðastofnunar bréf og benda á mikilvægi þess að á meðan slíkar breytingar hafa ekki orðið að veruleika þá haldi Byggðastofnun áfram að sinna þeim verkefnum sem henni eru falin samkvæmt gildandi lögum þ. m. t. lánveitingum.

Reykjavík, 29. nóvember 2005.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta