Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2005 Utanríkisráðuneytið

Ráðherrafundur EFTA í Genf

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, undirritar samkomulag við Indónesíu um sameiginlega könnun á hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning milli EFTA og Indónesíu.
Frá ráðherrafundi EFTA

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra sat í dag ráðherrafund EFTA ríkjanna í Genf í Sviss. Fundinn sóttu ráðherrar allra EFTA-ríkjanna. Ráðherrarnir ræddu samskipti EFTA ríkjanna og fríverslunarsamninga EFTA við þriðju ríki.

Ráðherrarnir fögnuðu því að fríverslunarviðræðum EFTA-ríkjanna við Suður-Kóreu og Tollabandalag Suður-Afríku væri lokið. Stefnt er að undirritun fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna við Suður Kóreu í Hong Kong desember. Ráðherrarnir voru sammála því að samningurinn við Suður Kóreu ásamt yfirstandandi samningaviðræðum EFTA undir forystu Íslands við Tæland styrki enn frekar samkeppnistöðu fyrirtækja frá EFTA-ríkjunum í Asíu. Þá verður samningur EFTA-ríkjanna og Tollabandalags Suður-Afríku fyrsti fríverslunarsamningurinn sem EFTA-ríkin gera við Afríkuríki sunnan Sahara. Samningaviðræður EFTA við Kanada og Egyptaland hafa dregist mjög á langinn en ráðherrarnir ítrekuðu eindreginn vilja EFTA ríkjanna til að ljúka þeim sem fyrst.

Ráðherrarnir áréttuðu áhuga sinn á því að EFTA næði fríverslunarsamningum við Kína og Japan. Ráðherrarnir ræddu ennfremur tengslin við Rússland og Úkraínu. Af hálfu utanríkisráðherra Íslands var lögð sérstök áhersla á að EFTA ætti sem fyrst að leita formlega eftir fríverslunarviðræðum við þessi tvö mikilvægu ríki.

Ráðherrarnir áttu ennfremur óformleg skoðanaskipti um undirbúning ráðherrafundar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem fram fer í Hong Kong í desember nk.

Samhliða fundinum var undirritað samkomulag við Indónesíu um sameiginlega könnun á hagvæmni þess að gera fríverslunarsamning milli EFTA og Indónesíu. Á fundinum var ennfremur tekin ákvörðun um skipun Didier Chambovey frá Sviss í stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra EFTA með aðsetur í Genf til þriggja ára frá miðju ári 2006.

Einnig sótti utanríkisráðhera í dag sameiginlegan fund ráðherra EFTA-ríkjanna og þingmannanefndar EFTA þar sem fram fóru skoðanaskipti um EFTA samstarfið.

Frettatilkynning EFTA

Ráðherrafundur í Genf

 

 

 

 

 

 



 

 

Frá ráðherrafundi EFTA

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, undirritar samkomulag við Indónesíu um sameiginlega könnun á hagkvæmni þess að gera fríverslunarsamning milli EFTA og Indónesíu.
Frá ráðherrafundi EFTA

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta