Úthlutun styrkja úr Kristnihátíðarsjóði 2005
Úthlutun styrkja úr Kristnihátíðarsjóði fer fram við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu fimmtudaginn 1. desember nk. og hefst kl. 12. Samtals verður úthlutað styrkjum að fjárhæð um 96 m.kr. til 59 verkefna sem tengjast menningar- og trúararfi þjóðarinnar og fornleifarannsóknum.
Kristnihátíðarsjóður var stofnaður til að minnast þess að 1000 ár voru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn á Íslandi. Sjóðurinn starfar eftir lögum nr. 12/2001 um Kristnihátíðarsjóð. Starfstími sjóðsins er fimm ár eða til ársloka 2005. Ríkissjóður hefur lagt til 100 milljónir króna fyrir hvert hinna fimm starfsára sjóðsins. Hlutverk sjóðsins er tvíþætt: Annars vegar er honum ætlað að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn. Hins vegar er hlutverk sjóðsins að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum. Stjórn sjóðsins, kjörin af Alþingi, skipa Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor, sem jafnframt er formaður, Anna Agnarsdóttir, prófessor, og Þorsteinn Gunnarsson, rektor. Stjórnin skipaði tvær verkefnisstjórnir, sem gert hafa tillögur til stjórnar um verkefni og framlög til þeirra fyrir hvert starfsár, auk þess að vera stjórninni til ráðgjafar. Formaður verkefnisstjórnar á sviði menningar- og trúararfs, sem hefur aðsetur á Akureyri, er Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor. Formaður verkefnisstjórnar á sviði fornleifafræði, með aðsetur í Reykjavík, er Guðmundur Hálfdanarson, prófessor.
Nú er komið að síðustu úthlutun sjóðsins og hefur þá verið úthlutað um 500 milljónum króna til rannsókna á þessum sviðum. Í tilefni af því hefur stjórn Kristnihátíðarsjóðs ákveðið að efna til ráðstefnu, sem ber heitið „Hin forna framtíð", en hún hefst í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins kl. 14 þann 1. desember 2005. Samnefnd sýning verður opnuð sama dag í bókasal Þjóðmenningarhússins. Jafnframt var ákveðið að gefa út rit, þar sem finna má m.a. stuttar lýsingar á flestum verkefnum sem sjóðurinn hefur styrkt, sum að fullu, önnur að hluta.
Reykjavík 29. nóvember 2005