Afhending trúnaðarbréfs
Guðmundur Árni Stefánsson, sendiherra, afhenti í gær, 30. nóvember, Karli Gústafi XVI Svíakonungi trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Svíþjóð. Athöfnin fór fram í konungshöllinni í Stokkhólmi.
Að afhendingu lokinni átti sendiherra fund með konunginum. Í viðræðum sínum við konunginn lagði sendiherra áherslu á náinn vinskap þjóðanna sem grundvallaðist á gagnkvæmri virðingu og náinni samvinnu á fjölmörgum sviðum. Konungur tók undir þetta og rifjaði upp heimsóknir sínar til Íslands í gegnum tíðina og sagðist hrífast af atorkusemi Íslendinga og krafti á fjölmörgum vettvangi. Hann ræddi útrás Íslendinga í fjármálalífinu og sérstaklega aukna þátttöku þeirra í sænsku atvinnulífi, sem hann sagði vekja jákvæða athygli meðal sænsku þjóðarinnar.
Konungurinn og sendiherrann ræddu einnig menntamál og rifjaði konungurinn upp opinbera heimsókn sína til Íslands á síðasta ári og nefndi þá til sögunnar í háskólann á Akureyri og hvernig sá skóli hefði tekið tæknina í sína þjónustu með fjarkennslu, m.a. með nánum tengslum við stóran nemendahóp með aðsetur í Hafnarfirði.
Alþjóðavæðing, nærsvæðasamstarf, svo sem á vettvangi Norðurlandaráðs, efnahagsmál í víðu samhengi, umhverfismál og þátttaka eldri borgara í atvinnulífinu voru meðal þeirra mála sem báru á góma í um það bil 30 mínútna viðræðum Karls Gústafs XVI og nýs sendiherra Íslands í Svíþjóð.
Í gær átti sendiherra stuttan fund með Lailu Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Á þeim fundi þar sem rætt var um ýmis sameiginleg hagsmunamál ríkjanna kom m.a. fram afdráttarlaus vilji utanríkisráðherra til að viðhalda styrk Norðurlandaráðs og sagði hún nærsvæðasamskipti afar brýn í alþjóðlegu samhengi. Samstarf norrænu ríkjanna væri fyrirmynd víða um heim í þeim efnum.
Sendiráðið í Stokkhólmi er meðal elstu sendiráða Íslands, en það var stofnað 27. júlí 1940. Fyrstur til að veita sendiráðinu forstöðu var Vilhjálmur Finsen, sendifulltrúi. Guðmundur Árni Stefánsson er fimmtándi sendiherra Íslands í Stokkhólmi, en hann tók við af Svavari Gestssyni, sem nú er sendiherra í Kaupmannahöfn.
Samskipti Íslands og Svíþjóðar hafa alla tíð verð farsæl og vinsamleg. Um það bil 4.000 Íslendingar búa í Svíþjóð, þar af um helmingur á Stokkhólmssvæðinu.