Hoppa yfir valmynd
1. desember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Alþjóðleg ráðstefna haldin í kjölfar „Karla um borð“

Karlar um borð
Karlar um borð

Um 200 karlar sátu ráðstefnuna Karlar um borð, fyrstu ráðstefnu íslenskra karla um jafnréttismál í Salnum í Kópavogi í morgun. Frú Vigdís Finnbogadóttir var eina konan meðal ráðstefnugesta. Í lok fundarins var gerð eftirfarandi ályktun, sem Árni Magnússon, félagsmálaráðherra bar upp:

„Fundur íslenskra karla um jafnréttismál í Salnum í Kópavogi á fullveldisdegi Íslendinga 1. desember 2005 er einhuga um nauðsyn þess að karlar axli aukna ábyrgð á jafnrétti kynjanna. Fram að þessu hafa konur hafa borið hitann og þungann af jafnréttisbaráttunni en jafnréttismál eiga ekki eingöngu að vera kvennamál; þau eru mannréttindamál sem karlmenn þurfa að ræða og berjast fyrir af fullum krafti. Til að ná knýja á um breytingar þurfa karlar að koma um borð og leggjast á árarnar með konum.

Jafnrétti kynjanna stuðlar að betri nýtingu mannauðs. Jafnrétti kynjanna eykur verðmætasköpun. Jafnrétti kynjanna skapar afkomendum okkar öruggari framtíð. Jafnrétti kynjanna er mikilvæg forsenda fyrir farsæld og hamingju og þess vegna allra hagur.

Karlafundur um jafnréttismál skorar á karla heimsins að taka jafnréttsimálin föstum tökum og mæta til alþjóðlegrar ráðstefnu um karla og jafnréttismál sem haldin verður Íslandi á haustdögum 2006.“

Á ráðstefnunni flutti ávörp, auk Vigdísar og Árna: Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka, Gunnar Páll Pálsson, formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, Ingólfur V. Gíslason, sviðsstjóri hjá Jafnréttisstofu, Ólafur Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, og Þráinn Bertelsson rithöfundur. Egill Helgason stýrði tveimur pallborðsumræðum. Annars vegar pallborði ungra karla í stjórnmálaflokkunum, þeirra Bolla Thoroddsen, formanns Heimdallar, Egils Arnar Sigurþórssonar, varaformanns Sambands ungra framsóknarmanna, Emils Hjörvars Petersen, varaformanns Ungra vinstri grænna, og Jens Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Ungra jafnarðarmanna. Á hinu pallborðinu sátu reynsluboltar úr jafnréttisbaráttunni: Sigurður Svavarsson, fyrsti formaður karlanefndar Jafnréttisráðs, Hafsteinn Karlsson skólastjóri, Hjálmar G. Sigurðsson, frá karlahópi Femínistafélags Íslands, séra Bragi Skúlason, Andrés Ragnarsson sálfræðingur og Jón G. Hauksson ritstjóri. Ráðstefnustjóri var Þórhallur Gunnarsson sjónvarpsmaður.

Myndir frá ráðstefnu karla um jafnréttismál



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta