Samstarfssamningur milli Íslands og Evrópsku réttaraðstoðarinnar
Fréttatilkynning
39/2005
Í dag, 2. desember 2005, í Brussel, skrifuðu dóms- og kirkjumálaráðherra Björn Bjarnason og Michael Kennedy forseti fagráðs Evrópsku réttaraðstoðarinnar (Eurojust) undir samstarfssamning milli Íslands og Evrópsku réttaraðstoðarinnar, sem hefur aðsetur í Haag.
Eurojust er ætlað að styðja við rannsókn og saksókn mála sem varða alvarlega fjölþjóðlega brotastarfsemi. Er meginhlutverk stofnunarinnar að efla samvinnu og auðvelda samræmingu aðgerða saksóknara og lögregluyfirvalda þegar mál varða fleiri en eitt aðildarríki. Stofnuninni var komið á fót með ákvörðun ráðs Evrópusambandsins þann 28. febrúar 2002 og hefur Eurojust heimild til að gera samstarfssamninga við þriðju ríki í því skyni að greiða fyrir samskiptum milli stofnunarinnar og yfirvalda í viðkomandi ríki. Dómsmálaráðherra er staddur í Brussel til að stýra fundi dóms- og innanríkisráðherra í samsettu nefndinni í Schengen samstarfinu, en fundurinn var haldinn í gær, 1. desember. Á fundi dóms- og innanríkisráðherra Evrópusambandsins, sama dag var Evrópsku réttaraðstoðinni heimilað að undirrita slíkan samstarfssamning við Ísland.
Starfsemi Eurojust er stjórnað af stjórnarnefnd sem er skipuð fulltrúa frá hverju aðildarríki Evrópusambandsins. Eru nefndarmenn ýmist dómarar, saksóknarar eða háttsettir lögreglumenn í heimalandi sínu. Stjórnarnefndinni er ætlað að vera vettvangur samráðs og upplýsingaskipta milli yfirvalda í aðildarríkjunum og greiða þannig samvinnu um rannsókn og saksókn mála. Er stofnuninni heimilt að óska eftir upplýsingum frá yfirvöldum í aðildarríkjunum um tiltekin atriði er varða rannsókn eða saksókn. Stofnunin getur hins vegar ekki tekið ákvarðanir um rannsókn eða saksókn mála, heldur er ákvörðunarvald í þeim efnum eftir sem áður í höndum réttbærra yfirvalda í aðildarríkjunum. Af Íslands hálfu mun embætti ríkissaksóknara annast samskiptin við Evrópsku réttaraðstoðina. Í samningnum felst m.a. að íslenskur sendisaksóknari vinni með stjórnarnefnd Evrópsku réttaraðstoðarinnar að málum sem upp kunna að koma og varða Ísland.
Samstarf milli íslenskra yfirvalda og Eurojust er til þess fallið að auka árangur í baráttu gegn alvarlegum afbrotum á Íslandi. Samstarfið er eðlilegt framhald af þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu, samstarfi við Europol, Evrópu lögregluna, og samningi um réttaraðstoð sem gerður hefur verið. Þá er unnið að gerð samnings um meðferð mála um framsal sakamanna.
Reykjavík, 2.desember 2005
Samningurinn: www.domsmalaraduneyti.is/utgefid-efni/ymislegt/nr/1244
Saminigurinn á ensku: eng.domsmalaraduneyti.is/reports/nr/1246