Starfshópur um vottun jafnra launa skipaður
Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Avion Group, Margrét María Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, Fanný Gunnarsdóttir, formaður Jafnréttisráðs, Orri Hlöðversson bæjarstjóri og Elín Blöndal, forstöðumaður Rannsóknarseturs í vinnurétti og jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst, eiga sæti í samráðshópi sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra hefur skipað til að undirbúa vottun jafnra launa hér á landi. Orri Hlöðversson er formaður starfshópsins.
„Ég vænti þess að hópurinn ljúki störfum snemma í vor og að næsta sumar verði fyrstu vottanirnar að veruleika“ sagði ráðherra er hann greindi frá skipun hópsins á karlaráðstefnu um jafnréttismál í Salnum í Kópavogi í gær.
Hópnum er ætlað að móta verklag og kerfi til þess að gera úttekt á launakerfi fyrirtækja og stofnana. Markmiðið er að með kerfinu verði unnt að kanna hvort kynbundinn launamunur sé fyrir hendi og reynist svo ekki vera verði vottað að ekki sé fyrir hendi kynbundinn launamunur hjá viðkomandi fyrirtæki eða stofnun.
Gert er ráð fyrir því að Rannsóknarsetur í vinnurétti og jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann á Bifröst visti það kerfi sem mótað verður á vettavangi samráðshópsins og þrói það í framtíðinni.
Ráðherra greindi fyrst frá hugmyndum sínum um gæðavottun jafnra launa á 30 ára afmæli kvennafrídagsins, þann 24. október síðastliðinn.