Námskrá í dansi fyrir framhaldsskólastig
Menntamálaráðuneytið hefur birt drög að námskrá fyrir danskjörsvið á listnámsbraut framhaldsskóla á vefsvæði sínu.
Sent: Félag íslenskra listdansara, Dansfræðifélagið, Dansdeild félags íslenskra leikara, Bandalag íslenskra listamanna, Íslenski dansflokkurinn, Listdansskóli Íslands, framhaldsskólar, Listaháskóli Íslands.
Menntamálaráðuneytið hefur birt drög að námskrá fyrir danskjörsvið á listnámsbraut framhaldsskóla á vefsvæði sínu www.menntamalaraduneyti.is. Í námskrárdrögunum er gerð grein fyrir skipulagi og inntaki náms á tveimur kjörsviðum; í klassískum listdansi og nútíma listdansi. Drögin voru unnin af starfshópi sem skipaður var með bréfi dags. 5. september 2005 og í sátu Guðbjörg Arnardóttir, Karen María Jónsdóttir, Lauren Hauser og Örn Guðmundsson.
Námskrárdrögin verða til kynningar á framangreindu vefsvæði til 13. janúar 2006. Á þeim tíma gefst hagsmunaaðilum og almenningi kostur á að senda athugasemdir og ábendingar um námskrárdrögin í heild eða einstaka þætti til menntamálaráðuneytisins, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík. Einnig er hægt að senda athugasemdir á netfangið [email protected]
Á næstu vikum verður unnið áfram að nánari útfærslu á einstökum þáttum námskrárinnar, einkum áfangamarkmiðum. Að því loknu og þegar unnið hefur verið úr hugsanlegum umsögnum og athugasemdum, samanber framangreint, mun ráðuneytið setja ný námskrárdrög á vefsvæði sitt til kynningar. Þá gefst enn kostur á að gera athugasemdir við námskrána áður en hún hlýtur endanlega staðfestingu ráðherra.
Farið er vinsamlega fram á að efni þessa bréfs verði kynnt fyrir þeim sem það á erindi við.