Batnandi horfur í heimsbúskapnum
Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Nýlega kom út seinni skýrsla þessa árs um alþjóðlega þróun efnahagsmála frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD).
Horfur eru almennt taldar góðar. Þrátt fyrir umtalsverða hækkun olíuverðs á þessu ári hefur hagvöxtur í heiminum haldist stöðugur og gert er ráð fyrir að svo verði áfram á næsta ári. Ástæður þess eru m.a. bætt nýting eldsneytis og sveigjanleg efnahagsstarfsemi í mörgum löndum. Væntingar fjárfesta til langs tíma benda jafnframt til þess að verðbólga muni almennt haldast hófleg.
Hagvöxtur hefur verið mikill í Bandaríkjunum og enn meiri í mörgum löndum Asíu og hinum nýju aðildarríkjum ESB. Eftir nokkurt skeið stöðnunar er hagvöxtur í Japan og Vestur-Evrópa að glæðast, m.a. vegna lágra langtímavaxta og kröftugs vaxtar útflutningsmarkaða en heimsviðskiptin eru að aukast um 10% í ár. Innlend eftirspurn er þó enn nokkuð slök. Á evrusvæðinu hefur lækkun á gengi evrunnar jafnframt haft jákvæð áhrif á útflutnings- og hagvöxt.
Í mörgum OECD-löndum hafa lágir langtímavextir haft áhrif til að auka fjárfestingu, sérstaklega í íbúðarhúsnæði. Í kjölfarið hefur fasteignaverð hækkað. Vegna aukinna tengsla innlendra lánastofnana við hinn alþjóðlega fjármagnsmarkað hefur Ísland ekki farið varhluta af þeirri þróun.