Ráðherrafundur ÖSE í Ljubljana 5.- 6. desember 2005
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 034
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, sat í dag og í gær utanríkisráðherrafund Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sem haldinn var í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu. Slóvenía hefur undanfarið ár gegnt formennsku í ÖSE. Utanríkisráðherrar frá 45 aðildarríkjum ÖSE sátu fundinn en alls eiga 55 ríki aðild að samtökunum, öll ríki Evrópu, Bandaríkin, Kanada og ríkin í Mið- Asíu. Auk þess sóttu fundinn utanríkisráðherrar ríkja í Asíu, Norður- Afríku og Miðausturlöndum, sem eru samstarfsaðilar ÖSE.
Utanríkisráðherra lýsti í ræðu á fundinum ánægju með störf ÖSE undanfarið, einkum hvað varðar mannréttindamál, lýðræðisþróun og kosningaeftirlit í aðildarríkjunum. Undanfarið hefur á vettvangi stofnunarinnar verið unnið að endurbótum á ÖSE sem miða að því að gera störfin skilvirkari. Utanríkisráðherra sagði að varast bæri að hagga við grundvallarþáttum sem ÖSE byggði á, einkum sjálfstæði hennar á sviði mannréttindamála. Utanríkisráðherra nefndi sérstaklega stuðning Íslands við baráttuna gegn hryðjuverkum og mansali.
Loks vék utanríkisráðherra að öryggismálum sem eru til umfjöllunar á vettvangi ÖSE, einkum óleystum deilum aðila í Georgíu og Moldóvu. Hann hvatti rússnesk stjórnvöld til að kalla herlið sitt til baka frá þessum löndum í samræmi við skuldbindingar sínar.
Í tengslum við fundinn átti Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, fundi með starfsbræðrum sínum frá Japan, Moldóvu, Möltu, Slóveníu, Tajikistan og Úkraínu og ræddi m.a. framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna auk tvíhliða samskipta landana. Eins og þegar hefur komið fram átti utanríkisráðherra einnig fund með bandaríska aðstoðarutanríkisráðherranum.
Ræða utanríkisráðherra (á ensku 11,8 KB)
Geir H. Haarde utanríkisráðherra með Dimitrij Rupel,
fráfarandi formanni ráðherraráðs ÖSE, utanríkisráðherra
Slóveníu.