Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Montreal
Ráðherrafundur Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Montreal hófst í dag, miðvikudaginn 7. desember. Ráðherrar og aðrir hátt settir fulltrúar frá yfir 90 ríkjum munu ávarpa fundinn. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra flytur ávarp fyrir Íslands hönd.
Loftslagsráðstefnan er fyrsti aðildarríkjafundur Kýótó-bókunarinnar, sem öðlaðist gildi í febrúar á þessu ári, en hún er jafnframt 11. aðildarríkjafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt Kýótó-bókuninni eiga yfir 30 iðnríki að takmarka útstreymi koltvíoxíðs og fimm annarra svokallaðra gróðurhúsalofttegunda við lagalega bindandi mörk á tímabilinu 2008-2012. Þróunarríkin hafa ekki slíkar skuldbindingar, en ákvæði eru um aðstoð við þau með tækniyfirfærslu og verkefnum sem draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Íslandi ber að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda þannig að það verði ekki meira en 10% meira en árið 1990 á fyrsta skuldbindingartímabilinu. Útstreymi koltvíoxíðs frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 verður bókað sérstaklega utan almennra útstreymisheimilda Íslands og skal ekki vera meira árlega en 1.600 þús. tonn að meðaltali árin 2008-2012.
Ráðstefnan var sett 28. nóvember sl. Á henni eru rædd ýmis mál varðandi framkvæmd Loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar, s.s. um aðstoð við þróunarríki varðandi loftslagsvæna tækni, aðlögun ríkja að loftslagsbreytingum og uppsetningu á kerfi til að skrá útstreymisheimildir og versla með þær. Nú þegar hafa þær reglur sem leggja grunninn að framkvæmd Kýótó-bókunarinnar verið formlega samþykktar á fundinum.
Það mál sem brennur heitast á Montreal-ráðstefnunni er væntanleg ákvörðun um að hefja nýjar viðræður um hvað taki við að loknu fyrsta skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar árið 2012. Fyrir liggur að á þessu ári skuli hefja viðræður um endurskoðun á skuldbindingum iðnríkjanna á næsta tímabili og er þess freistað að ná samkomulagi í Montreal á hvaða grunni þær viðræður skuli eiga sér stað. Það flækir þó málið að Bandaríkin og Ástralía standa utan Kýótó-bókunarinnar og telja mörg ríki sig eiga erfitt með að taka á sig auknar skuldbindingar ef þetta breytist ekki. Þá benda margir á að útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá þróunarríkjunum hefur aukist um meira en 50% frá 1990, á meðan útstreymi frá iðnríkjunum hefur dregist saman á sama tíma. Þess vegna hljóti að þurfa að taka á útstreymi þróunarríkja. Þrátt fyrir skiptar skoðanir um þessi mál standa vonir til að hægt verði að ná samkomulagi um að hefja nýjar viðræður á Montreal-ráðstefnunni.
Ef óskað er nánari upplýsinga má hafa samband við Huga Ólafsson skrifstofustjóra í umhverfisráðuneytinu í síma 896 2130.
Fréttatilkynning nr. 32/2005
Umhverfisráðuneytið