Hoppa yfir valmynd
8. desember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fjáraukalög og fjárlög samþykkt á Alþingi

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í síðustu viku urðu fjáraukalög fyrir árið 2005 að lögum á Alþingi og fjárlög fyrir árið 2006 voru samþykkt sem lög í þessari viku.

Fjáraukalög fyrir árið 2005 gera ráð fyrir ríflega 91 milljarðs króna tekjuafgangi á ríkissjóði og ef sleppt er söluhagnaði af hlutabréfum er tekjuafgangurinn um 33 milljarðar eða 3,4% af landsframleiðslu.

Lánsfjárafgangur er mun meiri eða ríflega 100 milljarðar króna og þar af er ríflega 60 milljörðum varið til að greiða niður erlendar skuldir og um 40 milljarðar verða ávaxtaðir hjá Seðlabanka Íslands.

Af inneign ríkissjóðs hjá Seðlabanka verða 32 milljarðar ávaxtaðir á sérstökum skuldabréfum sem eru með gjalddaga í samræmi við áformaða ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Þannig er verulegum fjármunum, eða 100 milljörðum króna, haldið utan efnahagslífsins og sterk tekjuafkoma ríkissjóðs heldur aftur af innlendri eftirspurn.

Fjárlög fyrir árið 2006 gera ráð fyrir 19,6 milljarða króna tekjuafgangi á ríkissjóði, eða sem nemur tæplega 2% af landsframleiðslu. Gert er ráð fyrir áframhaldandi lækkun skulda á næsta ári, eða um 11,4 milljarða króna. Verulegur tekjuafgangur verður því á ríkissjóði á næsta ári og ríkisfjármálum verður áfram beitt til aðhalds þrátt fyrir lækkun á tekjuskatti einstaklinga.

Fjárlög fyrir árið 2006 voru samþykkt án þess að gerðar væru efnislegar breytingar á fjárlagafrumvarpinu við 3. umræðu fjárlaga. Allar breytingar á tekjum og gjöldum komu fram við 2. umr. sem fór fram 24. nóvember sl. Er þetta þriðja árið í röð þar sem efnislegum breytingum á frumvarpinu lýkur við 2. umr. Aukin festa í ríkisfjármálum og breytt verklag fjárlaganefndar eiga hér stærstan hlut að máli.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta