Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins í Brussel
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 035
Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, sat utanríkisráðherrafund Norður- Atlantshafsbandalagsins í Brussel í dag. Á fundinum ræddu ráðherrarnir undirbúning leiðtogafundar bandalagsins á næsta ári þar sem fjallað verður um árangur og næstu skref til að bregðast við nýjum aðstæðum í öryggismálum. Þeir áréttuðu mikilvægi NATO fyrir sameiginlegar varnir og sem samráðsvettvangs Evrópu og Norður-Ameríku um öryggismál og ítrekuðu nauðsyn aukins samstarfs við aðrar alþjóðastofnanir, einkum Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið.
Þá ræddu ráðherrarnir árangur friðargæslustarfs bandalagsins í Afganistan og væntanlega ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um nýja alþjóðlega samstarfsáætlun um endurreisn landsins. Þeir samþykktu áætlun um útvíkkun friðargæsluliðs bandalagsins í Afganistan til annarra landshluta og brugðust jákvætt við beiðni afganskra stjórnvalda um aukið samstarf á sviði öryggismála. Varðandi málefni Balkanskaga hétu ráðherrarnir stuðningi við viðræður Sameinuðu þjóðanna um framtíðarstöðu Kósóvóhéraðs og áréttuðu jafnframt að réttindi minnihlutahópa verði tryggð í héraðinu. Þeir staðfestu skuldbindingar bandalagsins gagnvart ríkjum Balkanskaga og hvöttu þau til að sýna fulla samvinnu við Alþjóða stríðsglæpadómstólinn fyrir fyrrum Júgóslavíu í Haag. Ráðherrar lýstu ánægju með þann árangur sem Albanía, Króatía og Makedónía hafa náð til að mæta skilyrðum fyrir aðild að bandalaginu og hvöttu þau eindregið til að halda áfram nauðsynlegum umbótum. Jafnframt ræddu þeir árangur og horfur í Írak og í Miðausturlöndum og hétu áframhaldandi aðstoð við friðargæsluaðgerð Afríkusambandsins í Súdan. Þeir ræddu og árangurinn og reynsluna af aðstoð bandalagsins við pakistönsk stjórnvöld í kjölfar jarðskjálftanna í október sl. Áhugi Úkraínu á aðild að bandalaginu var einnig á dagskrá.
Einnig voru haldnir fundir í samstarfsráði bandalagsins með Rússlandi, í samstarfsnefnd bandalagsins með Úkraínu og í Evró-Atlantshafssamstarfsráðinu.
Kvöldið fyrir utanríkisráðherrafundinn sat Geir H. Haarde kvöldverðarfund utanríkisráðherra frá ríkjum Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins sem haldinn var til að styrkja Atlantshafstengsl Evrópu og Norður-Ameríku.
Nánari upplýsingar um ofangreindan fund er að finna á heimasíðu Norður-Atlantshafsbandalagsins (www.nato.int), þ.á m. yfirlýsingu fundanna.