Hoppa yfir valmynd
8. desember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Yfirlýsing félagsmálaráðherra vegna dóms Hæstaréttar

Vegna dóms Hæstaréttar í máli Valgerðar H. Bjarnadóttur gegn íslenska ríkinu vill Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, taka fram eftirfarandi:

"Með dómi sínum í dag hefur Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að við ákvörðun um starfslok Valgerðar H. Bjarnadóttur, sem framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, hafi verið brotið gegn reglu stjórnsýslulaga um meðalhóf við töku stjórnvaldsákvörðunar. Hæstiréttur telur að með vægari aðgerðum hefði mátt ná því markmiði að skapa frið um starfsemi Jafnréttisstofu með því að Valgerður viki tímabundið úr starfi meðan beðið var dóms Hæstaréttar í máli sem hún tengdist og varðaði meint brot á ákvæði Jafnréttislaga. Ennfremur telur Hæstiréttur að við meðferð málsins hafi undirritaður stytt sér leið að settu marki, knúið Valgerði í reynd til að láta af starfi og hafi það verið ósamrýmanlegt þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að undirbúningur og úrlausn máls miði að því að komast hjá að fylgja lögboðinni málsmeðferð, sem ætlað sé að tryggja réttaröryggi aðila. Með þessu hafi félagsmálaráðherra bakað íslenska ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart Valgerði, sem rétturinn telur hæfilega ákveðnar 6 milljóniir króna, að teknu tilliti til miska.

Ég dreg ekki dul á að þessi niðurstaða Hæstaréttar veldur mér vonbrigðum. Ég hafði vænst þess að niðurstaða Héraðsdóms yrði staðfest en þar var íslenska ríkið sýknað af kröfum Valgerðar og ekki talið að brotinn hefði verið á henni réttur að neinu leyti. Það var einnig mat Ríkislögmanns og annarra lögfræðilegra ráðgjafa sem ég leitaði til við meðferð málsins. Með niðurstöðu Hæstaréttar er hins vegar fengin endanleg niðurstaða. Ég fagna því að málinu er nú lokið og óska Valgerði H. Bjarnadóttur velfarnaðar."



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum