Samstarfsamningur Íslands og Veðurtunglastofnunar Evrópu, EUMETSAT
- Umhverfisráðherra gerir samning um aukinn aðgang að veðurgögnum
- Samningurinn styrkir vöktun á veðri og veðurspárgerð og markar tímamót í starfsemi Veðurstofu Íslands
- Hægt verður að greina veður og spá veðri með mun meiri nákvæmni bæði í tíma og rúmi en áður
hefur verið unnt - Gögnin eru fengin frá Veðurtunglastofnun Evrópu sem bæði rekur eigin veðurhnetti og á í víðtæku
alþjóðasamstarfi
Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, og forstjóri Veðurtunglastofnunar Evrópu (EUMETSAT), Dr. Lars P. Prahm, munu mánudaginn 12. desember 2005 undirrita samstarfssamning Íslands og EUMETSAT. Undirritunin fer fram í Þjóðmenningarhúsinu kl. 10 árdegis.
Við undirritunina mun Veðurstofan kynna sýnishorn af þeim nýju gögnum sem Ísland kemur til með að hafa aðgang að. Sýndar verða m.a. hreyfimyndir um þær umbreytingar sem hafa átt sér stað í veðrinu síðustu daga. Þá verður gerð grein fyrir því að myndir og önnur gögn úr veðurtunglum, ásamt nákvæmari tölvureiknuðum veðurspám og öflugri miðlunartækni er að breyta allri veðurþjónustu og gera hana sífellda og gagnvirka.
Samningurinn er byggður á þeirri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að leita eftir samstarfi við EUMETSAT til að styrkja vöktun á veðri, veðurfari og ýmsum veðurtengdum umhverfisþáttum hér á landi. Samningaviðræður hófust snemma árs 2005 og voru drög að samningi við Ísland samþykkt í stjórn EUMETSAT 30. nóvember sl. Samningurinn mun taka gildi 1. janúar 2006 og er hann til fimm ára, en þá er gert ráð fyrir að Ísland verði fullgildur aðili að stofnuninni.
EUMETSAT (The EUropean Organisation for the Exploitation of METeorological SATellites) tók formlega til starfa árið 1986 og eru aðildarlönd stofnunarinnar 18 Vestur-Evrópuríki. Auk þess er stofnunin með samstarfssamning við 11 ríki í Mið- og Austur-Evrópu. Verður Ísland þannig 30. landið í Evrópu sem kemur inn í þetta samstarf. Veðurstofur aðildarríkjanna fara með framkvæmd stofnsamnings fyrir hönd ríkisstjórna aðildar- og samstarfsríkjanna og mynda veðurstofustjórar landanna stjórn stofnunarinnar.
Meginhlutverk EUMETSAT er að afla gagna um ástand andrúmslofts og yfirborðs jarðar til að styrkja vöktun á veðri, veðurspágerð og viðvaranahlutverk veðurstofa. Auk þess hafa gögn þau sem unnt er að afla með rekstri gervitungla orðið æ mikilvægari til margs konar vöktunar á umhverfi og náttúru til lands og sjávar. Er nú svo komið að gögn sem aflað er utan úr geimnum gegna meginhlutverki í rauntímavöktun og eftirliti með umhverfi og náttúru svo sem langtímabreytingum á henni og hamförum. Sem dæmi má nefna að meira en 90% af því gagnamagni sem notað er í daglegum veðurspáreikningum evrópsku veðurspámiðstöðvarinnar í Reading er komið úr veðurgervitunglum.
EUMETSAT rekur nú fjóra „sístöðu“ veðurgervihnetti en þeir eru í um 37.000 km hæð yfir miðbaug, fylgja snúningi jarðar og er því hver þeirra ávallt yfir sama staðnum. Ástand lofts og yfirborðs lands og hafs er því sívaktað á þeim svæðum sem hnettirnar skanna. Staðsetning þessara veðurtungla hefur þó þann ókost að gögnin verða ónákvæmari eftir að komið er meira en 65-70 gráður norður eða suður frá miðbaug. Þess vegna mun EUMETSAT á næstunni hefja rekstur á annarri tegund gervitungla, þ.e. tungla sem fara milli pólanna (polar orbiting). Er ákveðið að fyrsta gervihnetti EUMETSAT af þeirri tegund verði skotið á loft 30. júní 2006. Gert er ráð fyrir að náið samstarf verði milli EUMETSAT og bandarísku veðurstofunnar NOAA um rekstur slíkra veðurhnatta en NOAA hefur rekið þessa tegund veðurtungla um áratuga skeið.
Auk fyrrnefndrar gagnaöflunar fer fram umfangsmikil þróunarstarfsemi og hugbúnaðargerð á vegum EUMETSAT sem nýtist við notkun á gögnunum. Auk þróunarverkefna sem tengjast veðurvöktun, veðurspám og öðrum veðurtengdum þáttum má t.d. nefna í þessu sambandi verkefni sem tengjast mælingum og vöktun á hafi, hafís, ósoni í andrúmslofti og mengun auk margs konar greiningar á yfirborði lands. Ennfremur sinnir EUMETSAT umfangsmikilli fræðslu og þjálfun sem öll samstarfsríkin eiga aðkomu að með sama hætti og aðildarríkin.
Þá má nefna að EUMETSAT starfar í nánum tengslum við Geimferðastofnun Evrópu og fleiri evrópska og alþjóðlega aðila á þessu sviði. Þetta felur í sér tækifæri fyrir Ísland til að ná tengslum við aðrar stofnanir í gegnum samstarfið við EUMETSAT enda er stofnunin sú fyrsta á sviði fjarkönnunar sem Ísland tekur upp formlegt samstarf við.
Loks er þess að geta, að með þessum samningi, sem Veðurstofa Íslands mun fara með framkvæmd á fyrir hönd Íslands, munu aðrir opinberir aðilar, eins og ríkisstofnanir, háskólar og sveitarfélög, hafa aðgang að öllu því sem EUMETSAT hefur upp á að bjóða. Sala og markaðsstarfsemi með þessi gögn er hins vegar háð skilyrðum sem sett hafa verið af stjórn EUMETSAT en þessi skilyrði taka mið af gagnasamþykktum Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og eru viðurkennd af samkeppnisstofnun ESB.
Fréttatilkynning nr. 34/2005
Umhverfisráðuneytið