Einfaldara Ísland
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra hefur skipað starfshóp með fulltrúum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að undirbúa aðgerðaráætlunina „Einfaldara Ísland." Meginmarkmið áætlunarinnar, sem kynnt var í stefnuræðu forsætisráðherra nú í haust, verður einföldun laga og reglna, ekki síst til þess að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Er starfshópnum ætlað að gera tillögur um hvernig best sé að standa að slíkri einföldun á meðan ábyrgð á því að hrinda áætluninni sjálfri í framkvæmd verður fyrst og fremst verkefni einstakra ráðuneyta.
Formaður starfshópsins er Páll Þórhallsson lögfræðingur í forsætisráðuneytinu. Aðrir í starfshópnum eru Anna Guðrún Björnsdóttir sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ari Edwald framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Baldur Pétursson skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu, Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, Ingvi Már Pálsson lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu, Katrín Pétursdóttir framkvæmdastjóri Lýsis hf., Kristinn Hugason stjórnsýslufræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu og Sigríður A. Arnardóttir skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu.
Starfshópnum er ætlað að skila tillögum fyrir mitt ár 2006. Starfshópurinn verður ólaunaður.
Reykjavík 14. desember 2005