Hoppa yfir valmynd
15. desember 2005 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál

Nýlega lauk úttekt menntamálaráðuneytisins á markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál sem starfrækt var frá 1999 til 2005. Markáætlunin hafði til ráðstöfunar 580 m.kr., heildarfjöldi umsókna var 226 og samþykktir voru styrkir til 95 verkefna.

Nýlega lauk úttekt menntamálaráðuneytisins á markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál sem starfrækt var frá 1999 til 2005. Markáætlunin hafði til ráðstöfunar 580 m.kr., heildarfjöldi umsókna var 226 og samþykktir voru styrkir til 95 verkefna.

Menntamálaráðherra skipaði þriggja manna nefnd vorið 2005 til að meta framkvæmd og áhrif markáætlunarinnar. Nefndina skipuðu Ágúst H. Ingþórsson, forstöðumaður Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, formaður nefndarinnar, Svana Helen Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Stika ehf. og Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri skrifstofu sjálfbærrar þróunar og alþjóðamála í umhverfisráðuneyti. Starfsmaður nefndarinnar var Helga Jóhanna Oddsdóttir, meistaranemi við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, og var skýrsla nefndarinnar hluti af meistararitgerð hennar.

Markmið úttektarinnar var tvíþætt og beindist að viðfangsefnum og framkvæmd markáætlunarinnar. Metið var hvort markáætlunin hefði náð markmiðum sínum og með hvaða hætti. Einnig var framkvæmd markáætlunarinnar metin og tekið tillit til mats á umsóknum, meðhöndlun þeirra, gerð styrkja, samningagerð og umsýsla um veitta styrki og að lokum skýrsluskil, eftirlit og verklok. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði viðhorfskönnun meðal verkefnisstjóra og fylgir hún í heild sinni í viðauka.

Ein helsta niðurstaðan er sú að markáætlun um upplýsingatækni og umhverfismál náði yfirlýstum markmiðum um að efla þekkingargrunn á þessum tveimur sviðum. Hún stuðlaði að auknu samstarfi vísindamanna innanlands og aukinni þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Erfitt er að mæla bein efnahagsleg áhrif áætlunarinnar þótt þau séu vissulega merkjanleg á ákveðnum sviðum. Áhrifin felast líklega fremur í eflingu þekkingar, sem verður jarðvegur fyrir hagnýt verkefni og framleiðslu síðarmeir, en að áætlunin hafi leitt til margra slíkra verkefna nú þegar.

Nefndarmenn telja að markáætlanir eigi tvímælalaust rétt á sér í rannsóknum á Íslandi. Æskilegt er að hafa bæði opna rannsóknasjóði sem styrkja rannsóknir á öllum sviðum og markáætlanir með skýr pólitísk markmið. Meirihluti þátttakenda í áætluninni sem svaraði viðhorfskönnun sem nefndin lét gera er sama sinnis.

Framkvæmd áætlunarinnar tókst vel að mati nefndarinnar. Mikill áhugi var á þátttöku í áætluninni, matsferli var faglegt og þátttakendur voru flestir ánægðir með framkvæmdina og samskipti við Rannís. Þó telur nefndin að mikilvægt sé að minnka skriffinnsku í ferlinu og bæta framkvæmd eftirlits.

Nefndin setur fram 14 ábendingar til stjórnvalda sem lúta að úthlutun, framkvæmd og eftirfylgni markáætlunar. Þar er m.a. lagt til að: veita færri og stærri styrki; auka áherslu á alþjóðlegt samstarf; aðstoða umsækjendur, einkum í fyrirtækjum sem ekki hafa reynslu að sækja um rannsóknastyrki; endurskipuleggja eftirlit með framvindu verkefna; bæta kynningu á niðurstöðum einstakra verkefna og markáætlunar í heild; og taka upp reglulegt mat á árangri við veitingu opinbers fjár til rannsókna, tækniþróunar og atvinnusköpunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta