Verndun kóralsvæða
Fréttatilkynning
úr
Sjávarútvegsráðuneyti
Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð um friðun 5 viðkvæmra hafsvæða fyrir Suðurlandi. Svæðin eru alls um 80 ferkílómetrar að stærð. Þau eru á Skaftárdjúpi, og á landgrunnsköntunum út af Hornafjarðardjúpi og Reynisdjúpi. Á svæðunum sem friðuð eru fyrir öllum veiðum nema uppsjávarveiðum í hringnót og flottroll eru kóralsvæði á hafsbotni. Rannsóknir á undanförnum árum hafa sýnt æ betur mikilvægi umhverfisþátta fyrir viðgang nytjastofna og nauðsyn þess að horfa til þeirra á forsendum varúðar og vistkerfisnálgunar.
Ráðherra tilkynnti í lok nóvember að hann hefði ákveðið að friða þessi svæði. Í framhaldi af könnunarleiðangri Hafrannsóknarstofnunar 2004 þar sem hliðsjón var höfð af niðurstöðum fyrirspurna til sjómanna, var sett á laggirnar nefnd til að skoða forsendur fyrir friðun viðkvæmra hafssvæða. Nefndin gerði tillögur um lokun svæða sem fóru til umfjöllunar hjá útgerðar- og skipstjórnarmönnum sem gerðu bæði breytingar og viðbótartillögur. Þegar ráðherra kynnti ákvörðun sína um að loka þessum svæðum fagnaði hann ábyrgri afstöðu þeirra sem í sjávarútvegi starfa.
Reglugerðin tekur gildi 1. janúar 2006. Strandarstöðvar veita nánari upplýsingar.
Sjávarútvegsráðuneytið