Loftferðasamningur við Líbanon
Hinn 13. desember síðastliðinn. urðu samninganefndir Íslands og Líbanon ásáttar um texta loftferðasamnings milli landanna, sem felur í sér víðtæk gagnkvæm réttindi til farþega-, vöru- og póstflutninga.
Samningurinn verður formlega undirritaður síðar, en samkomulag er um að ákvæðum hans verði fylgt í reynd uns að því kemur.
Efni samningsins er hagstætt íslenskum flugfélögum og hafa bæði flugmálayfirvöld í Líbanon og flugfélagið Middle East Airlines mikinn áhuga á að íslensku flugfélögin auki flug sitt til og um Beirút. Flugmálastjóri Líbanon, dr. Hamdi Chaouk, sem er bæði flugmálastjóri og yfirmaður flugstöðvarinnar í Beirút, var formaður samninganefndar Líbanon. Hét hann íslenskum flugfélögum allri fyrirgreiðslu, sem unnt er að láta í té, til þess að þau geti nýtt sér viðskiptatækifæri í þessum heimshluta á grundvelli samningsins.
Samningaviðræðurnar fóru fram í Beirút og tóku af Íslands hálfu þátt í þeim Sverrir H. Gunnlaugsson, sendiherra Íslands í Líbanon með búsetu í London, formaður, Ástríður S. Thorsteinsson, lögfræðiráðunautur Flugmálastjórnar og Hrafn Þorgeirsson yfirmaður stöðvastjóra Icelandair.