Hoppa yfir valmynd
16. desember 2005 Matvælaráðuneytið

Skrifað undir samning um stjórn veiða úr kolmunnastofninum í Norður-Atlantshafi

Fréttatilkynning frá

sjávarútvegsráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu

Á strandríkjafundi Íslands, Færeyja, Noregs og Evrópusambandsins í Ósló í morgun var skrifað undir samning um stjórn veiða úr kolmunnastofninum í Norður-Atlantshafi. Eftir fund strandríkjanna í Kaupmannahöfn, í byrjun nóvember, lá fyrir samningur í meginatriðum en ganga þurfti frá lokaútfærslu hans, áður en hægt var að skrifa undir endanlegan samning.

 

Samkvæmt samningnum munu strandríkin skipta leyfilegum heildarafla sínum úr kolmunnastofninum þannig að Evrópusambandið fær 30,5%, Færeyjar 26,125%, Noregur 25,745% og Ísland 17,63%. Gert er ráð fyrir að leyfilegur heildarafli strandríkjanna verði 2.000.000 tonna árið 2006 og koma 352.600 tonn í hlut Íslendinga. Til viðbótar kvóta strandríkjanna er gert ráð fyrir því að á vettvangi Norðausturatlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) muni verða veittar heimildir til veiða á úthafinu árið 2006 þar sem Rússar fái 100.000 tonna kvóta og Grænlendingar 10.000 tonn. Þar af leiðandi verður hlutdeild Íslands í heildaraflanum lítið eitt lægri hlutfallslega, þegar allt er talið, en strandríkjakvótinn segir til um.

 

Miðað við verðmæti afla undanfarinna tveggja ára má ætla að aflaverðmæti Íslendinga 2006 gæti orðið um 2,4 milljarðar króna. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum íslenskra fiskimjölsframleiðenda má gera ráð fyrir að útflutningsverðmæti á mjöli sé u.þb. tvöfalt aflaverðmæti. Með samkomulaginu er endi bundinn á stjórnlausar veiðar undanfarinna ára, sem hafa ógnað kolmunnastofninum, en hann er sá fiskistofn sem mest hefur verið veiddur undanfarin ár í Norður-Atlantshafi.

 

Nánir upplýsingar veitir:

                        Vilhjálmur Egilsson

                        -ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu

                        s. 892-4825                                                                            

 

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum