Þrennar sameiningarkosningar fyrirhugaðar
Fyrirhugað er að kosið verði um sameiningu sveitarfélaga á þremur stöðum í upphafi árs 2006, að frumkvæði viðkomandi sveitarstjórna.
Í kjölfar sameiningarkosninga sem fram fóru víða um land í haust, hófu sveitarstjórnir nokkurra sveitarfélaga viðræður við nágranna sína um sameiningu á grundvelli 90. gr. sveitarstjórnarlaga. Ráðuneytinu hefur verið tilkynnt um að atkvæðagreiðslur muni fara fram á þremur stöðum á komandi ári.
Þann 21. janúar 2006 verður kosið um sameiningu Húsavíkurkaupstaðar, Kelduneshrepps, Öxarfjarðarhrepps og Raufarhafnarhrepps. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst 26. nóvember síðastliðinn.
Þann 28. janúar 2006 verður kosið um sameiningu Siglufjarðarkaupstaðar og Ólafsfjarðarbæjar. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hófst 3. desember síðastliðinn.
Þann 11. febrúar 2006 verður kosið um sameiningu Hraungerðishrepps, Villingaholtshrepps og Gaulverjabæjarhrepps. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst 17. desember.
Sveitarstjórnir Dalabyggðar og Saurbæjarhrepps eru ennfremur í viðræðum um mögulega sameiningu sveitarfélaganna á grundvelli 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga, en íbúar sveitarfélaganna samþykktu sameiningu þeirra í atkvæðagreiðslu 8. október síðastliðinn.
Gangi tillögurnar eftir verður kosið til sveitarstjórna nýrra sveitarfélaga í almennum sveitarstjórnarkosningum sem fram fara þann 27. maí 2006.