Einföldun umsýslu
Stefnt er að því að einfalda umsýslu varðandi skráningu og þinglýsingu skipa.
Núverandi fyrirkomulag við skráningu og þinglýsingu skipa hefur ýmsa galla sem bæta þarf úr. Í dag gilda til dæmis mismunandi reglur um eignarskráningu, sem fer eftir stærð skipa. Þá er tvöföld eignaskráning á skipum, þar sem skrá þarf skip í þinglýsingabækur hjá sýslumönnum og í skipaskrá hjá Siglingastofnun.
Siglingastofnun og og sýslumaðurinn á Ísafirði telja að unnt verði að leysa vandamál í tengslum við skráningu og þinglýsingu skipa, með því að einfalda umsýsluna á þann veg að umdæmisskrifstofa Siglingastofnunar á Ísafirði og embætti sýslumannsins á Ísafirði sjái alfarið um skipaskráningu og þinglýsingar á réttindum tengdum skipum. Nú þegar eru haffærisskírteini fyrir allt landið gefin út á Ísafirði, auk þess sem Ísafjörður og Reykjavík eru einu staðirnir á landinu þar sem þessi starfsemi fer saman.
Samgönguráðherra og dómsmálaráðherra hafa ákveðið að vinna að tillögum Siglingastofnunar og sýslumannsins á Ísafirði með það að markmiði að minnka skriffinnsku og einfalda stjórnsýsluna.
Ráðherrarnir hafa falið stofnunum að vinna að framkvæmd málsins í samráði við Söndru Baldvinsdóttur lögfræðing hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og Svönu Margréti Davíðsdóttur lögfræðing hjá samgönguráðuneytinu. Stefnt er að því að breytingarnar geti tekið gildi 1. júní 2006.