Það eru dulin verðmæti í jólasmákökunum
Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Eitt af aðalsmerkjum íslenskrar jólamenningar í áratugaraðir hefur verið smákökubakstur. Húsmæður hafa keppst við að baka smákökur á jólaföstunni og fyllt hvert ílátið á fætur öðru með gríðarlegu úrvali sorta. Heimilisfólk og gestir hafa síðan notið þessa í ríkum mæli yfir hátíðirnar og fyllt út í þá kima í meltingarfærunum sem aðalmáltíðirnar hafa skilið eftir. Enginn vafi er á því að smákökuát landsmanna er hluti af lífsgæðum þjóðarinnar en vandinn er sá að þess hefur hvergi séð stað í hefðbundnum mælikvarða hagfræðinga á lífsgæðum: landsframleiðslunni. Henni er ætlað að mæla þá verðmætaaukningu sem verður þegar hráefni er breytt í neysluvöru eða þjónusta er veitt. Gallinn er sá að til að verðmætaaukningin mælist þurfa að fara fram viðskipti. Hins vegar er venjulegast ekki greiddur aðgangseyrir að fjölskylduboðum á jólunum og því fer þessi mikilvægi þáttur þjóðlífsins framhjá annars vökulum augum mælingamanna þjóðarhagsins og það þrátt fyrir að hér sé um veruleg “verðmæti” að ræða. Sömu sögu er að segja af laufabrauðaskurði og konfektframleiðslu svo dæmi séu tekin af annarri verðmætasköpun sem fram fer á aðventunni innan veggja heimila landsmanna.
Á landinu öllu eru um 75.000 svo kallaðar kjarnafjölskyldur, þ.e. heimili þar sem fleiri en einn býr. Ef gert er ráð fyrir að á þessum heimilum séu bakaðar þrjár tegundir af smákökum að meðaltali (en innan þess rúmast bæði þær fjölskyldur sem ekki baka neitt og svo hinar þar sem tegundafjöldinn skiptir tugum) er hér um að ræða 225 þúsund uppskriftir. Þessu til viðbótar er ekki ólíklegt að einhverjir baki sem búa einir en því má heldur ekki gleyma að sumir Íslendingar halda ekki jól eða hafa ekki enn tekið upp þennan mikilvæga hluta þjóðmenningarinnar. Áætlað er að beinn efniskostnaður vegna þessarar starfsemi sé um það bil 100 milljónir króna. Til þess að setja þá tölu í samhengi, með hliðsjón af algengum hráefnum í jólabaksturinn, má geta þess að verðmæti innflutnings landsmanna á strásykri í fyrra var um 200 milljónir, af púðursykri fluttu landsmenn inn fyrir 9 milljónir og annað eins af afhýddum möndlum. Þá má geta þess að framleiðslan af suðusúkkulaði var í kring um 200 milljóna virði en tiltölulega lítið er flutt inn af því. Til viðbótar hráefninu kemur orkukostnaður að ógleymdu vinnuframlagi kökugerðarmannsins (sem í flestum tilvikum er reyndar kona). Með það er hins vegar farið eins og aðra ólaunaða vinnu: hennar sér hvergi stað í opinberum útreikningum.
Nú gerist það hins vegar í auknum mæli að kaupmenn bjóða neytendum tilbúnar smákökur og þá er hægt að áætla verðmæti heimatilbúinnar smákökuframleiðslu (ef ekki er tekið tillit til þess að mörgum finnast heimabakaðar kökur betri en verksmiðjuframleiddar) með því að ætla henni sama verðmæti og þeirrar sem seld er í verslunum. Að gefnum tilteknum forsendum áætlar ráðuneytið að jólabaksturinn sé nokkuð á þriðja hundruð milljóna króna virði og vinnsluvirðið, sem er verðmætaaukningin í eldhúsum landsmanna, sé þá yfir eitt hundrað milljónir. Það telst ef til vill ekki mikið enda áætlar Rannsóknasetur verslunarinnar að aukakostnaður landsmanna vegna jólanna muni nema 5,8 milljörðum króna sem þó er ekki nema rúmlega 1% af einkaneyslu landsmanna í ár. Skatttekjur ríkissjóðs af smákökubakstri eru engar ef undan er skilinn virðisaukaskattur af hráefninu. Ef verksmiðjuframleiddar smákökur ryðja burt heimaframleiðslunni mun hagur ríkissjóðs vænkast og þjóðarhagur sömuleiðis – eða hvað?