Frumvörp fjármálaráðherra lögfest á haustþingi
Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Fjármálaráðherra flutti fimm frumvörp á haustþingi 2005 sem urðu að lögum fyrir jól. Auk fjárlaga 2006 og fjáraukalaga 2005 eru þau sem hér segir:
Breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt
1) Grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verður hækkuð frá 1. janúar 2006. Kemur breytingin til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2006 og við álagningu á árinu 2007. Er hækkunin til samræmis við þá hækkun persónuafsláttar sem samþykkt var haustið 2004.
2) Framtals- og skattlagningarstaður verður framvegis miðaður við hvar menn áttu lögheimili 31. desember. Kemur breytingin fyrst til framkvæmda á árinu 2006 og við álagningu á árinu 2007.
3) Bætt var við ákvæði til bráðabirgða sem heimilar álagningu eignarskatts á lögaðila sem eru með annað reikningsár en almanaksárið þegar tólf mánaða reikningstímabili þeirra lýkur á árinu 2005 þannig að ekki verði misræmi í álagningu eignarskatts m.t.t. loka reikningsárs.
Breytingar á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald ofl.
1) Framlenging á tímabundinni lækkun olíugjalds um hálft ár, eða til 1. júlí 2006. Fjárhæð hins lækkaða olíugjalds er 41 kr.
2) Eigendum ökutækja til sérstakra nota verður heimilt að velja hvort þeir greiða olíugjald og kílómetragjald eða hvort þeir verða undanþegnir olíugjaldi, en greiða á móti sérstakt kílómetragjald samkvæmt gjaldskrá sérstaks kílómetragjalds. Lögin öðlast þegar gildi.
Breytingar á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga
Breyting sem fyrst og fremst varðar endurútgáfu laganna en miðað er við að lögin verði endurútgefin á árinu 2006.