Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2006 Innviðaráðuneytið

Ný lög um skipan ferðamála hafa tekið gildi

Lög um skipan ferðamála nr. 73/2005 sem samþykkt voru á Alþingi í maí síðastliðnum tóku gildi 1. janúar.

Helstu breytingar frá núgildandi lögum varða hlutverk Ferðamálaráðs Íslands og skrifstofu Ferðamálaráðs, þá færast leyfismál frá samgönguráðuneytinu til Ferðamálastofu.

Frá árinu 1964 hefur sérstakt ráð, Ferðamálaráð, verið stjórn skrifstofu Ferðamálaráðs og samkvæmt lögum borið faglega og fjárhagslega ábyrgð á störfum hennar. Ferðamálaráð fær með gildistöku laganna nýtt og breytt hlutverk og verður ekki lengur stjórn umræddrar stofnunar. Ferðamálastjóri ber nú alla faglega og fjárhagslega ábyrgð á störfum stofnunarinnar gagnvart ráðherra.

Ferðamálastofa tekur við hlutverki Ferðamálaráðs sem stofnunar

Stofnunin, sem hefur verið kölluð Ferðamálaráð Íslands eins og ráðið sjálft, þó í reynd væri hún skrifstofa Ferðamálaráðs, fær nú nafn og mun heita Ferðamálastofa. Ferðamálastofa tekur samkvæmt lögunum við öllum skuldbindingum og verkefnum skrifstofu Ferðamálaráðs. Þannig að engin núverandi verkefni falla niður eða eru færð annað. Ferðamálastofa mun því áfram sinna þeim verkefnum sem skrifstofur Ferðamálaráðs hafa sinnt gagnvart stjórnvöldum, greininni og innlendum og erlendum ferðamönnum.

Leyfismál færast til Ferðamálastofu

Frá 1. janúar 2006 færast leyfismál vegna ferðaskrifstofa, ferðaskipuleggjena og fleiri frá samgönguráðuneytinu til Ferðamálastofu. Þeir sem hafa gild leyfi til reksturs ferðaskrifstofu ber að sækja um ný leyfi til Ferðamálastofu fyrir 30. júní 2006, en þá falla úr gildi öll núgildandi leyfi. Ferðamálastofu er jafnframt falið að ákvarða, innheimta og vista tryggingarfé ferðaskrifstofa. Þá mun Ferðamálastofa samkvæmt nýju lögunum sinna skráningu bókunarmiðstöðva og upplýsingamiðstöðva, sem verða nú skráningaskyldar í fyrsta sinn.

Framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu

Ferðamálastofu er með nýju lögunum falið nýtt verkefni sem snýr að framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu. Þingsályktun um framkvæmd þessarar áætlunar var samþykkt á síðastliðnu vorþingi. Í ferðamálaáætlun 2006-2015 eru fjölmörg verkefni sem miða að uppbyggingu ferðaþjónustunnar og er Ferðamálastofu falin umsjón og framkvæmd þeirra (PDF-1,5MB),



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta