Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2006 Innviðaráðuneytið

Styrkir til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2006

Umsóknir óskast vegna úthlutun 40 milljóna króna til úrbóta í umhverfismálum árið 2006.

Liður í stefnu stjórnvalda er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar á íslenskri náttúru. Á umliðnum árum hefur Ferðamálaráð Íslands hefur úthlutað um 418 milljónir króna til uppbyggingar á ferðamannastöðum víðsvegar um land. Nú um áramótin tók Ferðamálastofa við hlutverki Ferðamálaráðs sem stofnunar og mun eftirleiðis sjá um úthlutun fjárins.

Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi svæða, og mikilvægi aðgerðanna með tilliti til náttúruverndar. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum. Einnig verður tekið tillit til þess hvort viðkomandi verkefni nýtur þegar fjárstuðnings opinberra aðila.

Um þrjá meginflokka er að ræða.

1. Til minni verkefna:

Úthlutað verður til minni verkefna í umhverfismálum þar sem áhersla verður lögð á uppbyggingu gönguleiða. Eingöngu verða veittir styrkir til efniskaupa. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur. Til ráðstöfunar eru 10 milljónir króna.

2. Til stærri verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum:

Veittir verða styrkir til stærri verkefna þar sem umsækjendur stýra framkvæmdum og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur:

a) Um verði að ræða svæði eða staði sem verulegur fjöldi ferðamanna sækir heim.
b) Einungis verða styrkt svæði þar sem fullnaðarhönnun liggur fyrir.
c) Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.
d) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum.
e) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (d) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu.
f) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að gerðum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega.

3. Til uppbyggingar á nýjum svæðum:

Veittir verða styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum sem skipulögð hafa verið þannig að ferðamönnum nýtist viðkomandi svæði. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur:

a) Styrkupphæð getur aldrei orðið hærri en sem nemur 75% af framkvæmdakostnaði.
b) Einungis verða styrkt svæði þar sem samþykkt deiliskipulag liggur fyrir.
c) Hluti af styrkupphæð Ferðamálastofu getur farið til verkhönnunar á viðkomandi svæði, þó aldrei meira en sem nemur 25% af styrkupphæð.
d) Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki.
e) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum.
f) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (e) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu.
g) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að gerðum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega.

Nánari upplýsingar og umsóknareyðublað er að finna á vefsíðu Ferðamálastofu og hjá umhverfisfulltrúa í síma 464-9990 eða í gegnum vefpóst: [email protected]

Umsóknarfrestur er til 27. janúar 2006

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta