Víðtækt samráð vegna framtíðarstefnumótunar um aðkomu stjórnvalda að íbúðalánum
Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að efna til víðtæks samráðs um framtíðarstefnumótun um hlutverk og aðkomu stjórnvalda að íbúðalánum.
Í þeirri vinnu verður haft samráð við samtök bankastofnana og lífeyrissjóða, aðila vinnumarkaðarins, fulltrúa neytenda, húseigenda, leigjenda, námsmanna, öryrkja, aldraðra, fasteignasala og fleiri sem hagsmuna eiga að gæta við mótun opinberrar stefnu í húsnæðismálum.
Ákvörðun ráðherra er tekin í framhaldi af því að nú liggja fyrir niðurstöður starfshóps sem falið var að leggja mat á stöðu Íbúðalánasjóðs og möguleika sjóðsins við breyttar markaðsaðstæður til að standa vörð um þau pólitísku markmið sem honum er ætlað að ná.
Starfshópurinn hefur skilað niðurstöðum sínum á minnisblaði til ráðherra. Starfshópurinn telur rétt að stjórnvöld taki efnislega afstöðu til þess hvort aðstæður kalli á að ráðist verði í grundvallarbreytingar á hlutverki hins opinbera á íbúðalánamarkaði, fremur en að ákveða óverulegar breytingar á núverandi stöðu og lagaumhverfi sjóðsins til að bregðast við breyttum aðstæðum og láta þar við sitja. Ef horft verður til frekari breytinga telur starfshópurinn eðlilegt að kannað verði til hlítar hvort rétt sé að þróa hlutverk Íbúðalánasjóðs í átt til heildsölubanka.
Jafnframt leggur starfshópurinn áherslu á það að ef ákvörðun verður tekin um að ráðist verði í frekari breytingar á húsnæðiskerfinu og endurskoðun á hlutverki hins opinbera á íbúðalánamarkaði verði það ekki gert nema með víðtæku samráði við þá aðila sem málið varðar.