Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Innflutningur í desember 2005

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Bráðabirgðatölur um innheimtu virðisaukaskatts gefa til kynna að innflutningur í desember hafi numið tæpum 23 milljörðum króna. Ef tölurnar reynast réttar er innflutningur um 5 milljörðum króna lægri en í nóvember sem var stærsti innflutningsmánuður ársins. Munurinn skýrist að langmestu leyti af minni eldsneytisinnflutningi. Ef staðvirtur innflutningur án skipa og flugvéla í desember er borinn saman við sama mánuð árið á undan er um tæplega 26% aukningu að ræða. Tólf mánaða breyting á þriggja mánaða meðaltali staðvirts innflutnings án skipa og flugvéla leiðir í ljós rúmlega 33% aukningu.

Vöruinnflutningur að raunvirði



Ef bráðabirgðatölur eru lagðar saman við innflutning síðustu 11 mánaða reyndist innflutningur án skipa og flugvéla fyrir árið 2005 vera tæpir 278 milljarðar króna sem er þriðjungs aukning frá síðasta ári. Helstu orsakir þessarar miklu aukningar má m.a. rekja til innflutnings á fjárfestingarvörum sem var að stórum hluta tilkominn af stóriðjuframkvæmdum. Þá juku verðhækkanir eldsneytis á liðnu ári verðmæti innflutnings umtalsvert. Mikil aukning varð einnig í einkaneyslu, þar af jókst innflutningur á varanlegum og hálf-varanlegum neysluvörum mikið á árinu (dæmi um varanlegar neysluvörur eru heimilistæki en hálf-varanlegar vörur eru t.d. fatnaður og skór). Annar stór áhrifaþáttur var stóraukinn innflutningur á farartækjum. Íslendingar hafa nýtt sér hagstætt gengi til að kaupa bíla í stórum stíl og hefur innflutningur á bílum sjaldan eða aldrei verið meiri en á þessu ári. Bílainnflutningur náði hámarki í júní þegar flutt var inn fyrir um 3,3 milljarða króna en á haust- og vetrarmánuðum hefur innflutningsverðmætið verið í kringum 2 milljarða á mánuði.

Á heildina litið nam innflutningur fyrstu 11 mánuði þessa árs 262 milljörðum króna. Ef bráðabirgðamati desembermánaðar er bætt við verður heildarinnflutningur á árinu í kringum 285 milljarðar króna og eru þá skip og flugvélar meðtaldar. Ef bráðabirgðatölur reynast réttar voru fluttar inn mat- og drykkjarvörur fyrir tæplega 20 milljarða króna, neysluvörur fyrir um 47 milljarða króna, hrá- og rekstrarvörur fyrir um 69 milljarða króna, eldsneyti fyrir rúmlega 27 milljarða króna, fjárfestingarvörur fyrir tæpa 67 milljarða króna, flutningatæki fyrir um 53 milljarða króna, þar af nam innflutningur bifreiða um 26 milljörðum króna.

Spá ráðuneytisins fyrir innflutning á árinu, sem birt var í október síðastliðnum, er tæpum sjö milljörðum minni en væntanleg niðurstaða. Möguleg ástæða fyrir þessum mun er hugsanlegt vanmat á eftirspurn eftir innfluttum varningi í tengslum við sterka stöðu krónunnar á lokamánuðum ársins. Ráðuneytið vinnur nú að nýrri þjóðhagsspá sem birt verður í lok mánaðarins.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta