Árangursupplýsingar við fjárlagagerð
Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Margar vestrænar ríkisstjórnir hafa verið að þróa kerfisbundnar aðferðir til að tengja fjárveitingar ríkins við árangurinn sem sóst er eftir.
Forsenda árangursfjárlagagerðar eru góðar upplýsingar um árangur af opinberri starfsemi og um kostnaðinn við að ná árangri. Það er hins vegar mismunandi hvernig reynt er að tengja saman árangur og fjárveitingar; hvers konar árangursupplýsingum er byggt á og hvers konar markmiðum er stefnt að.
Vönduð fjárlagagerð byggist á margvíslegum upplýsingum. Viðfangsefnið snýst ekki síst um að átta sig á því hvaða upplýsingar er æskilegt að leggja til grundvallar á hinum ýmsu stigum vinnunnar til að bæta ákvarðanatöku, hvernig hægt er að útvega þær og hverju má kosta til.
Þótt ríkin sem hafa unnið að því að taka upp árangursfjárlagagerð hafi ekki öll sama hátt á, hafi mislanga reynslu og hafi rekið sig á ýmislegt, halda þau öll ótrauð áfram á þróunarbrautinni. Þróun fjárlagagerðar lýkur ekki svo lengi sem fjárlagagerð er stunduð.
Þessi mál hafa verið rædd reglulega á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) eins og mörg önnur framfaramál sem stofnunin tekur upp. Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) bæst í hóp þeirra aðila sem vilja taka þátt í að þróa árangursstjórnun og árangursfjárlagagerð, bæði vegna innri rekstrar sjóðsins og vegna ráðgjafar til stjórnvalda víða um heim. Nýlega hélt sjóðurinn ráðstefnu þar sem helstu sérfræðingar á þessu sviði báru saman bækur sínar. Ráðstefnan var liður í því að safna saman reynsluog gera fræðilegar úttektir sem miðast að því að þróa aðferðir við fjárlagagerð opinberra aðila.
Á fundinum var m.a. fjallað um reynslu Breta sem leggja áherslu á að bæta markmiðasetningu á öllum stigum ríkisrekstrar. Ætlast er til að ráðuneytin útskýri að hverju skuli stefnt á mikilvægum sviðum og hverju það muni skila þjóðinni og einstökum hópum. Dæmi um markmið (Public Service Agreement targets) á sviði heilbrigðismála er að draga úr dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóma hjá þeim sem eru undir 75 ára um 40% fyrir árið 2010. Árið 1998 þegar slík markmiðasetning var fyrst tekin upp voru markmiðin 600 að tölu. Markmiðin hafa verið endurskoðuð annað hvert ár og var fækkað niður í 110 árið 2004. Í öllum tilvikum á að vera ljóst hverjir svara fyrir framvindu einstakra markmiða, þannig að ábyrgðarkeðjan á alltaf að liggja fyrir. Það kostar alltaf eitthvað að ná settum markmiðum og þótt markmið og árangursupplýsingar séu meðal þess sem lagt er til grundvallar við fjárlagagerð ríkisins eru engin sjálfvirk tengsl á milli markmiðasetningar og fjárveitinga. Vegna mikilvægis árangursupplýsinga er áríðandi að þær séu traustar og er ýmsum aðferðum beitt til að sannreyna þær og gera úttektir á árangri. Sömuleiðis er lögð áhersla á að koma árangursupplýsingum á framfæri við almenning og aðra sem láta sig þessi mál varða.
Þá var á fundinum sagt frá kerfisbundnu mati á verkefnum bandarísku alríkisstjórnarinnar (PART) sem felst í því að taka hvert og eitt verkefni fyrir með því að svara 30 spurningum varðandi tilgang, skipulag, stjórnun og árangur. Tilgangurinn er að bæta ábyrgð, ákvarðanir um fjárveitingar og framkvæmd verkefnanna. Með þessu er komið á formlegum tengslum milli umfjöllunar um árangur verkefna og um fjárveitingar án þess þó að gera tengslin sjálfvirk. Helstu áhrif kerfisins hafa verið þau að auka vægi stjórnunar- og fjárlagaskrifstofu Bandaríkjastjórnar auk þess sem kerfið hefur haft áhrif á mælingar á starfsemi ríkisins og söfnun starfsemistalna, beint athyglinni að starfsemi og sviðum sem þarf að endurmeta frá grunni og eflt árangursstjórnun, svo það helsta sé nefnt.
Töluvert var fjallað um notkun árangursmælinga til að deila fyrirfram ákveðinni fjárveitingu út á milli stofnana með svokölluðum reiknilíkönum (formula funding). Mörg lönd styðjast við þannig aðferðir vegna ákvarðana um fjármögnun skóla og heilbrigðisstofnana. Á ráðstefnunni var tekið dæmi um fjármögnun háskóla í Eþíópíu sem nýlega var breytt með hliðsjón af fyrirkomulagi í Bretlandi og fleiri löndum. Þar greiðir ríkið einingarframlag á hvern nemanda í fullu háskólanámi en þeir sem eru í hlutanámi greiða námið sjálfir. Framlagið er reiknað út frá fáum og einföldum forsendum, enda talið að flóknar forsendur og útreikningar leiði ekki til réttlátari skiptingar fjárveitinga á milli skóla. Framlag er mishátt eftir fræðasviðum en óháð því í hvaða skóla kennslan fer fram. Munur á lægsta og hæsta framlagi er sjöfaldur og er dýrasta námið doktorsnám sem krefst aðstöðu á tilraunastofum. Eingöngu er greitt fyrir nemendur sem ljúka námsári og einungis greitt með hverjum nemanda í ákveðinn árafjölda. Reynslan af notkun reiknilíkana bendir almennt til að þau hafi marga góða kosti en geti verið afar flókin í framkvæmd þar sem þau krefjast yfirleitt aukins eftirlits með árangri, breytinga á hvatningu stjórnenda og formlegrar endurskoðunar á mælingum til að staðfesta tölur.