Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2006 Forsætisráðuneytið

Dagur upplýsingatækninnar 24. janúar 2006

FORSÆTISRÁÐUNEYTIÐ
IÐNAÐAR- OG VIÐSKIPTARÁÐUNEYTI
SAMGÖNGURÁÐUNEYTIÐ

  • Íslendingar eru í fararbroddi Evrópuþjóða í tölvunotkun, tölvueign og tengingu við Netið en í meðallagi þegar kemur að netverslun og opinberri þjónustu.
  • Stórt skref í innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu verður stigið haustið 2006 með opnun þjónustuveitunnar Ísland.is.
  • Altengt Ísland og að allir landsmenn sitji við sama borð, óháð búsetu, er grundvallaratriði nýrrar fjarskiptaáætlunar til ársins 2010.
  • Tillögur stjórnvalda, sem eru í mótun vegna fjármögnunar nýsköpunarverkefna, eiga að bæta starfsskilyrði fyrirtækja í hátækniiðnaði.

Upplýsingatæknidagurinn, UT-dagurinn, er haldinn í fyrsta sinn 24. janúar nk. til að vekja athygli á stöðu upplýsingatækni, upplýsingatækniiðnaðar og fjarskipta hér á landi og þeim tækifærum sem Íslendingar standa frammi fyrir á því sviði. Að deginum standa forsætisráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, samgönguráðuneyti og fjármálaráðuneyti í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun, Samtök upplýsingatæknifyrirtækja og Skýrslutæknifélagið.

Samkvæmt nýrri samantekt Hagstofunnar; Ísland í evrópsku upplýsingasamfélagi, eru Íslendingar fremstir í flokki Evrópuþjóða í tölvueign og aðgengi að Netinu og skara einnig fram úr með áberandi hætti þegar skoðuð er tölvu- og netnotkun einstaklinga. Þá er Ísland í þriðja sæti Evrópuþjóða hvað varðar háhraðatengingar á heimilum en þegar kemur að verslun og framboði á opinberri þjónustu á Netinu eru Íslendingar rétt hálfdrættingar á við þær Evrópuþjóðir sem þar tróna á toppnum.

Þjónustuveitan Ísland.is

Þrátt fyrir góða útkomu Íslands í heildina í þessari samantekt er mikið verk að vinna, bæði hvað varðar innleiðingu rafrænnar stjórnsýslu og eflingu verslunar á Netinu. Þegar er hafinn undirbúningur að þjónustuveitu fyrir almenning á Netinu, þar sem hægt verður að nálgast á einum stað alla þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Stefnt er að því að opna fyrsta áfanga hennar í haust á vefslóðinni www.island.is. Þar verður hægt að nálgast alla vefþjónustu ríkis og sveitarfélaga á einum stað og þar sem það á við verður innleidd sjálfsafgreiðsla á Netinu sem sparar bæði almenningi og fyrirtækjum tíma og fjármuni. Þjónustuveitan er samstarfsverkefni ríkisstofnana, ráðuneyta og sveitarfélaga og jafnframt eitt stærsta verkefnið í stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið fyrir árin 2004-2007.

Altengt Ísland

Annað risavaxið verkefni stjórnvalda, sem tengist upplýsingatækninni, eru endurbætur á GSM-farsímakerfinu á hringveginum, meginstofnvegum og fjölsóttum ferðamannastöðum, sendingar á stafrænu sjónvarpi um gervihnött til sjófarenda og uppbygging á háhraðatengingum á landsvæðum þar sem fjarskiptafyrirtækin hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Hálfum þriðja milljarði króna af söluandvirði Símans verður á næstu fjórum árum varið til þessara mála og hefst útboðsferli vegna uppbyggingar GSM-kerfisins strax í mars nk.

„Ég er sannfærður um að fjárfesting í hraðbrautum upplýsingamiðlunar um land allt er lykill að jafnari búsetuskilyrðum en ella. Ég er líka sannfærður um að öflugar samskiptabrautir munu leika stórt hlutverk í í alþjóðlegri samkeppnishæfni okkar á komandi árum,“ segir Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Altengt Ísland, að allir landsmenn sitji við sama borð, óháð búsetu, er grundvallaratriði fjarskiptaáætlunar til ársins 2010. Með nýrri tækni þar sem jöfnum höndum er hægt að flytja tal, hljóð og mynd eru óðum að skapast forsendur fyrir því að Íslendingar geti gert kröfu um svokallaða alnánd, þ.e. örugga fjarskiptaþjónustu alltaf og alls staðar – óháð staðsetningu, tegund fjarskiptanets eða tegund þjónustu. Og tækifærin sem þetta skapar virðast óþrjótandi, t.d. munu allir, óháð búsetu, geta sjónvarpað hvaðan sem er með einföldum búnaði ef næg bandbreidd er fyrir hendi, framboð á sjónvarpsstöðvum á Netinu verður óháð landamærum og getur skipt tugum þúsunda og unnt verður að kaupa símaþjónustu frá hverjum sem er, hvar sem er í heiminum.

Af öðrum verkefnum, sem tengjast stjórnsýslunni og miða að því að auka útbreiðslu upplýsingatækninnar, má nefna tilraunaverkefnin Virkjum alla og Sunnan 3, sem nú standa yfir á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis í nokkrum sveitarfélögum, annars vegar á Norðurlandi og hins vegar á Suðurlandi. Þar er unnið að eflingu búsetuskilyrða á svæðunum, með markvissri nýtingu upplýsingatækni og fjarskipa, og í þingsályktunartillögu að nýrri byggðaáætlun er gert ráð fyrir fjármagni til að yfirfæra þekkingu og reynslu tilraunasveitarfélaganna til annarra sveitarfélaga.

Frekari vöxtur og fjármögnun

Þrátt fyrir erfiðleika sem hátæknifyrirtæki á Íslandi hafa glímt við að undanförnu, einkum vegna sterkrar stöðu krónunnar, hefur fyrirtækjunum fjölgað á liðnum árum en starfsmönnum hefur aðeins fækkað, að því er fram kemur í nýrri samantekt Hagstofunnar; Íslenskur upplýsingatækniiðnaður 2000-2004. Alls störfuðu 426 fyrirtæk í upplýsingatækniiðnaði hér á landi árið 2004, samanborið við 374 árið 2000, og hafði velta þeirra aukist úr 67 milljörðum árið 2000 í tæpa 90 milljarða 2004. Útflutningur upplýsingatækniþjónustu, þ.á.m. hugbúnaðar, hefur einnig aukist á umræddu tímabili og nam tæpum fjórum milljörðum króna árið 2004 á meðan útflutningur upplýsingatæknivara nam ríflega hálfum milljarði króna árið 2004

„Þennan vöxt í upplýsingatækniiðnaði má að stórum hluta þakka þá áherslu sem stjórnvöld leggja á tækniuppbyggingu og nýsköpun á undanförnum árum, m.a. með stofnun Nýsköpunarsjóðs og Tækniþróunarsjóðs,“ segir Valgerður Sverrisdóttir, ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála. „Stjórnvöld hafa ekki í hyggju að láta þar staðar numið heldur halda áfram að skapa hér á landi þau skilyrði sem greitt geta fyrir vexti íslensks upplýsinga- og hátækniiðnaðar.“ Tillögur starfshóps um fjármögnun nýsköpunar, sem aðallega beinast að skattalegum umbótum til að auka aðgengi nýsköpunarfyrirtækja að áhættufjármagni, voru nýverið kynntar í ríkisstjórn en þar eru m.a. lagðar til skattaívilnanir til hátækni- og nýsköpunarfyrirtækja vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Viðræður eru nú í gangi milli forsætis-, fjármála-, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyta um tillögurnar og væntir iðnaðar- og viðskiptaráðherra að niðurstöðurnar leiði til þess að almenn starfsskilyrði fyrirtækja hér á landi batni enn frekar, ekki síst fyrirtækja í hátækniiðnaði.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að einnig megi vænta á næstunni viðbragða einstakra ráðuneyta við boði Samtaka upplýsingafyrirtækja um þriðju stoðina, sem sett var fram á Iðnþingi í mars sl. og felur í sér að upplýsingatækni verði meginstoð í verðmætasköpun og gjaldeyristekjum landsmanna árið 2010.

www.utvefur.is og ýmsir viðburðir og kynningar

Efnt er til ýmissa viðburða og kynninga í tilefni UT-dagsins og rís þar hvað hæst dagsráðstefna á Nordica hóteli undir yfirskriftinni: Tæknin og tækifærin - ráðstefna um áhrif og ávinning, framtíðarsýn og áhugaverð verkefni stjórnvalda. Á dagskrá eru m.a. erindi ráðherra þeirra ráðuneyta sem koma að verkefninu ásamt fjölmörgum erindum fulltrúa upplýsingatækni- og fjarskiptafyrirtækja. Dagskrá ráðstefnunnar er að finna á vef UT-dagsins; www.utdagur.is, og þar verður einnig hægt að fylgjast með ráðstefnunni í beinni útsendingu þriðjudaginn 24. janúar nk.

Nýr vefur um upplýsingatækni; www.utvefur.is, hefur jafnframt verið opnaður í tilefni UT-dagsins til að gera aðgengilegt á einum stað efni sem gagnast þeim sem vinna við og bera ábyrgð á verkefnum á sviði upplýsingatækni. Þá hefur verið ráðist í útgáfu ýmiss konar kynningarefnis í tilefni UT-dagsins, þ.á.m. á nýjum tölfræðilegum samantektum Hagstofunnar og bæklingi um upplýsingatækni frá Upplýsingu, félagi bókasafns- og upplýsingafræða (sjá meðfylgjandi gögn).

Nánari upplýsingar veitir:
Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri skrifstofu upplýsingasamfélagsins í forsætisráðuneyti og formaður undirbúningsnefndar vegna UT-dagsins, í síma 545 8470.

                                                                                                       

                                                                                                 Reykjavík, 19. janúar 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta