Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þjóðarbúskapurinn - vetrarskýrsla 2006

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 1/2006

Þjóðarbúskapurinn - vetrarskýrsla 2006Fjármálaráðuneytið hefur birt endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir árin 2005 til 2007. Þjóðhagsspáin er uppfærð í ljósi ákvarðana Alþingis um fjárlög og fjáraukalög til viðbótar við nýjar upplýsingar um efnahagsþróun.

Endurskoðaða þjóðhagsspá er að finna í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - vetrarskýrsla 2006. Í þessari skýrslu er fjallað um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála 2005-2007 meðal annars á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Nokkrar breytingar frá októberspá ráðuneytisins eru útskýrðar.

Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:

  • Áætlað er að landsframleiðslan árið 2005 hafi aukist um 5,1% vegna kröftugs vaxtar þjóðarútgjalda, bæði einkaneyslu og fjárfestingar. Á móti hafði aukinn innflutningur, samdráttur í útflutningi sjávarafurða og seinkun hluta stóriðjufjárfestingar áhrif til að draga úr hagvextinum það ár.
  • Í ár er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði áfram umtalsverður, eða 5%, þegar hægir á vexti þjóðarútgjalda en aukinn útflutningur áls fer að segja til sín.
  • Því er spáð að verulega dragi úr umsvifum árið 2007 en að áframhaldandi bati í utanríkisviðskiptum knýi hagvöxtinn sem verði 2,6% það ár.
  • Viðskiptahallinn náði hámarki í fyrra þegar hann var 15% af landsframleiðslu.
  • Gert er ráð fyrir að hann dragist saman í ár og verði 13% en minnki síðan hratt árið 2007 þegar því er spáð að hann verði um 6% af landsframleiðslu.
  • Atvinnuleysi hefur minnkað ört og áætlað er að það verði 1,7% af vinnuafli í ár en aukist í 2,6% árið 2007 þegar hægir á í efnahagslífinu. Nokkurrar framleiðsluspennu verður vart í hagkerfinu í ár en gert er ráð fyrir að hún minnki hratt í kjölfar mestu framkvæmdanna.
  • Ör hækkun fasteignaverðs leiddi til þess að vísitala neysluverðs hækkaði um 4% árið 2005 en það er umfram 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.
  • Samkvæmt spánni verður verðbólga 3,9% í ár. Búist er við að fasteignaverð hafi náð hámarki en á móti lækki gengi krónunnar innan ársins. Spáð er 4% verðbólgu árið 2007 vegna áframhaldandi gengislækkunar.
  • Helsti óvissuþáttur í þjóðhagsspánni varðar gengi krónunnar.

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.


Fjármálaráðuneytinu, 24. janúar 2006

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta