Sameining samþykkt á Siglufirði og Ólafsfirði
Íbúar á Siglufirði og Ólafsfirði hafa samþykkt sameiningu sveitarfélaganna í eitt. Á Siglufirði sögðu 86% þeirra sem greiddu atkvæði já við sameingu og 77% Ólafsfirðinga. Kjörsókn á Siglufirði var rúmlega 60% og um 70% á Ólafsfirði.
Þegar kosið var um sameiningu allra sveitarfélaganna á Eyjarðararsvæðinu í október síðastliðinum, voru íbúar Siglufjarðar og Ólafsfjarðar þeir einu sem samþykktu sameiningu. Í kjölfarið var ákveðið að hefja viðræður um hugsanlega sameiningu og varð niðurstaðan að leita á nýjan leik til íbúanna. Í hinu nýja sveitarfélagi búa um 2.300 íbúar, en Héðinsfjarðargöng munu tengja byggðakjarnana saman.
Kosið verður til nýrrar sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags í almennum sveitarstjórnarkosningum þann 27. maí næstkomandi. Í kjölfar sameiningu sveitarfélaganna er ljóst að sveitarfélögin i landinu verða ekki fleiri en 85 í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna.
Þann 11. febrúar verður kosið um sameiningu Gaulverjabæjarhrepps, Hraungerðishrepps og Villingaholtshrepps.