Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Menntamálaráðherra og umhverfisráðherra undirrita umsókn um að Surtsey verði samþykkt á heimsminjaskrá.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra
Frá undirritun umsóknar til UNESCO í Þjóðmenningarhúsinu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra undirrituðu í dag umsókn til UNESCO um að Surtsey verði samþykkt inn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna sem náttúruminjar. Til þess að komast inn á skrána þurfa viðkomandi náttúru- og menningarminjar að vera einstakar á heimsmælikvarða. Íslensk stjórnvöld telja forsendur fyrir tilnefningu Surtseyjar vera tvíþættar. Annars vegar er eyjan einstakt dæmi um þróunarsögu jarðar, þýðingarmikil ferli í landmótun, bergmyndun og jarðeðlisfræði. Hins vegar er hún einstök vegna þess að þar hafa skapast og verið nýtt tækifæri til þess að fylgjast með aðflutningi, landnámi og þróun tegunda lífvera á lífvana landi og hvernig vistkerfi á landi og í hafinu verða til, mótast og þróast.

Surtsey, Ljósm.: Ragnar Th. SigurðssonÞjóðir heims telja flestar mjög mikilvægt að eiga staði inni á heimsminjaskrá UNESCO. Í því felst bæði viðurkenning á því að innan vébanda þeirra séu til svo merkilegar náttúru- og/eða menningarminjar að þær hafi ótvíræða þýðingu fyrir allan heiminn og viðurkenning á því að viðkomandi þjóð sé fær um að varðveita minjarnar í nafni alls heimsins, því þjóðin skuldbindur sig að tryggja varðveislu þeirra. Það getur einnig haft mikla fjárhagslega þýðingu að eiga stað á heimsminjaskránni m.a. vegna fjölgunar ferðamanna og eflingar ferðaþjónustu í viðkomandi landi.

Surtsey er, eins og Ísland, hluti af Mið-Atlantshafshryggnum en hann er án efa stærsta samfellda jarðfræðifyrirbæri heimsins og nær frá Jan Mayen yfir Ísland til Suðurskautsins. Á Íslandi eru um 44 eldstöðvakerfi, en Surtsey varð til við gos í Vestmannaeyjaeldstöðinni 1963-67. Að meðaltali myndast tvær eyjar á öld í neðansjávargosum og í flestum tilfellum hverfa þær fljótt. Engin slíkra eyja hefur verið rannsökuð eins mikið og nákvæmlega og Surtsey. Frá upphafi hefur verið fylgst með jarðfræðilegri mótun eyjarinnar og landnámi og útbreiðslu plantna og dýra á eynni og neðansjávarhlíðum hennar, bæði af innlendum og erlendum vísindamönnum. Surtsey hefur hingað til verið eins og náttúruleg tilraunastofa í jarð- og vistfræði og mun verða það áfram. Friðlandið Surtsey var stækkað verulega í síðustu viku og friðun aukin í hafinu umhverfis eyjuna til þess að vernda alla eldstöðina, bæði ofan- og neðansjávar fyrir áhrifum mannsins. Surtseyjarfélagið hefur borið hita og þunga af skipulagningu rannsókna og á miklar þakkir skildar fyrir það.

Nú eru 13 náttúrusvæði á heimsminjaskrá UNESCO vegna eldvirkni og þar af eru nokkrar eyjar og eyjaklasar. Sem dæmi má nefnda Galapagos eyjar, Aeolinas eyjar, Krakatá og Hawaii eyjar. Af þessum eyjum hefur aðeins Krakatá myndast á sögulegum tíma. Þar hafa hins vegar ekki farið fram kerfisbundnar rannsóknir og eyjan er mikill ferðamannastaður og fiskimenn hafa auk þess nýtt eyjuna. Árið 1957 hófst neðansjávargos við Asoreyjar sem myndaði nýja eyju en hún tengdist fljótlega annarri eyju og ekki hefur verið fylgst með jarðfræðilegri þróun eyjarinnar eins og Surtseyjar.

Skýrsla Náttúrufræðistofnunar um Surtsey.Ríkisstjórnin samþykkti í desember sl. tillögu menntamálaráðherra og umhverfisráðherra um að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrána. Heimsminjanefnd Íslands hefur fyrir hönd menntamálaráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins haft yfirumsjón með undirbúningi tilnefningarinnar. Gerður var samningur við Náttúrufræðistofnun Íslands um að stofnunin tæki saman skýrslu fyrir tilnefninguna í samræmi við leiðbeiningareglur Alþjóðlegu heimsminjanefndarinnar frá því í febrúar 2005. Stofnunin hefur átt allan veg og vanda að tilnefningarskýrslunni og naut m.a. aðstoðar hluta þeirra vísindamanna sem stundað hafa rannsóknir í og við Surtsey.

Tilnefning Surtseyjar á heimsminjaskrá UNESCO verður afhent skrifstofu heimsminjasamningsins í París miðvikudaginn 1. febrúar nk. Teljist umsóknin fullnægjandi hefst um hálfs annars árs ferli við að fara yfir og meta umsóknina, sérstöðu Surtseyjar og hvort hún teljist það einstök á heimsmælikvarða að hún verði samþykkt á skrána og hvort Íslendingar standi nægilega vel að varðveislu hennar. Gangi allt að óskum verður Surtsey væntanlega samþykkt sem heimsminjastaður á fundi heimsminjanefndar UNESCO í júlí 2007.

Menntamálaráðuneytið
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta