Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins fyrir árið 2005

Frétt úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Í viðaukatöflu þrjú með endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins er að finna yfirlit yfir þróun þjóðhagsspáa ráðuneytisins.

Athyglisvert er að skoða þróunina fyrir árið 2005 frá því að fyrst var spáð fyrir það ár í október 2003 og til dagsins í dag. Hagvexti árið 2005 var fyrst spáð að verða 5,5% en í janúar 2004 var spáin hins vegar lækkuð í 3,5%. Spáin hækkaði í 5% á ný í maí 2004 og stóð óhreyfð í október það ár. Hins vegar tók spáin að hækka árið 2005 og endaði í 6% í október það ár.

Í nýbirtri endurskoðaðri þjóðhagsspá er áætlað að hagvöxtur hafi verið 5,1% í fyrra. Það er athyglisvert hve margvíslegar ástæður liggja að baki einstökum spám. Í ársbyrjun 2004 var enn óvissa með einstakar stóriðjuframkvæmdir á árinu 2005, en sú óvissa minnkaði og spár um vöxt fjárfestingar hækkuðu þegar leið á tímabilið. Í lok árs 2005 kom í ljós að fjárfesting myndi vaxa eitthvað minna vegna tafa í jarðgangagerð. Vegna aukinna umsvifa og hækkandi stýrivaxta Seðlabankans tók gengi krónunnar að styrkjast umfram væntingar og það hafði áhrif til að auka á einkaneyslu og innflutning. Þá dróst framleiðsluverðmæti sjávarafurða saman árið 2005 og það hafði áhrif til að útflutningur dróst saman á milli ára. Í september 2005 innleiddi Hagstofa Íslands nýja aðferð, árlega keðjutengingu, við að meta magnbreytingu í þjóðhagsreikningum í stað þess að nota fast grunnár, en það hafði áhrif á mælda hagþróun.

Spár ráðuneytisins yfir þetta tímabil fyrir hagvöxt árið 2005 voru að mestu á bilinu 5% til 6%. Eins og ofan greinir voru margþætt og breytileg atriði sem lágu að baki spám ráðuneytisins. Þá má geta þess að spár ráðuneytisins um verðbólgu árið 2005 byrjuðu í 3% en hækkuðu smám saman upp í um 4% í apríl 2005 og sú spá var óbreytt í október það ár. Það varð niðurstaðan. Hagstofa Íslands mun birta áætlun um hagvöxt ársins 2005 í mars 2006.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta