Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2006 Utanríkisráðuneytið

Nýr íslenskur ráðgjafasjóður hjá IFC

Logo IFC


 




FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu og Alþjóðalánastofnuninni

 

Nr. 5

Utanríkisráðuneytið og Alþjóðalánastofnunin (IFC), sem er ein af undirstofnunum Alþjóðabankans, hafa gert með sér samning um stofnun íslensks ráðgjafasjóðs á vegum IFC. Sjóðurinn hefur nú til ráðstöfunar 240.000 Bandaríkjadali sem renna til ráðgjafaverkefna sem stuðla að þróun einkageirans í þróunarlöndum.

Markmið sjóðsins er að greiða fyrir ráðgjafaþjónustu og tækniaðstoð íslenskra ráðgjafa í verkefnum á vegum IFC. Sjóðurinn mun því gefa íslenskum fyrirtækjum tækifæri á að vinna náið með IFC á vettvangi einkageirans á nýjum mörkuðum og í þróunarríkjum. Ráðgjafasjóðurinn er þannig einnig til þess fallinn að glæða viðskipti íslenskra fyrirtækja við þróunarlöndin og getur haft mikla þýðingu fyrir samstarf Íslands og IFC í framtíðinni.

Um IFC

IFC er sá armur Alþjóðabankans sem vinnur að uppbyggingu einkageirans í þróunarlöndum. IFC er sjálfstæð stofnun með höfuðstöðvar í Washington DC, en stofnunin vinnur náið með öðrum stofnunum Alþjóðabankans að málefnum þróunarlanda. Hlutverk IFC er að stuðla að fjárfestingum í þróunarlöndum sem leiða til efnahagslegar framþróunar og draga úr fátækt. IFC lánar fjármagn til fjárfestinga og kaupir hlutafé í fyrirtækjum, veitir fjárfestum aðstoð vegna umhverfislegra og félagslegra þátta og veitir tækniaðstoð og ráðgjöf til stjórnvalda og fyrirtækja í þróunarlöndum.

Frá stofnun IFC árið 1956 hefur stofnunin veitt samtals fjárhagslegar skuldbindingar að upphæð 49 milljörðum Bandaríkjadala og leitt fjármögnun með sambankalánum samtals að upphæð 24 milljörðum dala. 3.319 fyrirtæki í 140 löndum hafa átt í samstarfi við IFC. Árið 2005 námu heildarskuldbindingar IFC 19,3 milljörðum dala auk þess sem IFC stýrir sambankalánum að upphæð 5,3 milljörðum dala. Nánar um IFC, sjá www.ifc.org.

Um þróunarsamvinnu Íslands

Eins og fram kemur í Stefnumiðum Íslands um þróunarsamvinnu 2005 – 2009 skipa þróunarmál nú aukinn sess í utanríkisstefnu Íslands. Ríkisstjórn Íslands hefur sett skýr markmið um aukningu þróunaraðstoðar þar sem meðal annars verður lögð áhersla á að efling fyrirtækja í þróunarlöndum sé mikilvægur þáttur í baráttunni gegn fátækt. Útrás íslenskra fyrirtækja hefur stóraukist á síðustu árum, sem skapar tækifæri til að auka viðskiptatengsl milli Íslands og þróunarlanda. Samstarf við alþjóðastofnanir eins og IFC er ein þeirra leiða sem íslensk stjórnvöld munu fara til að nýta þau sóknarfæri sem útrásin bíður upp á. Nánar um þróunarsamvinnu Íslands, sjá www.utn.stjr.is/utanrikismal/throunarsamvinna.

Erindi utanríkisráðherra sem ráðuneytisstjóri flutti í fjarveru hans.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta