Umhverfisráðherra á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kemísk efni í Dubai
Samkomulag náðist í nótt á alþjóðlegri ráðstefnu umhverfisráðherra í Dubai um aðgerðaáætlun til að draga úr áhrifum kemískra efna á umhverfið og heilsu fólks.
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra tók þátt í ráðstefnunni sem var haldin á vegum Sameinuðu þjóðanna í Dubai í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum dagana 4. - 6. febrúar 2006. Fundinn sóttu fulltrúar um 130 ríkja heims.
Umhverfisráðherra flutti ræðu þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja hreinleika hafsins og að aðgerðaáætlunin væri mikilvægt skref í þá átt. Í ræðu ráðherra kom fram að áætlað hafi verið að kostnaður vegna heilsutjóns fólks á strandsvæðum vegna mengunar sjávar sé tæpir 13 milljarðar dollara á ári (jafnvirði um 800 milljarða íslenskra króna).
Nokkur átök urðu meðal ríkja um frágang aðgerðaáætlunarinnar einkum hvað varðar fjármögnun hennar og dróst fundurinn nokkuð af þeim sökum en samkomulag um lokatexta náðist snemma í morgun.
Áætlunin miðar að því að tryggja betri framleiðslutækni og meðhöndlum kemískra efna og betra eftirlit með framleiðslu nýrra efna. Að því er stefnt að áhrif kemískra efna á heilsu fólks og umhverfi verði hverfandi árið 2020. Fram að þeim tíma er gert ráð fyrir að þjóðir heims komi saman á þriggja ára fresti og meti framkvæmd áætlunarinnar sem Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna mun fylgjast með.
Kemísk efni eru í dag talin valda umtalsverðum áhrifum á heilsu fólks ekki síst í þróunarlöndunum. Mörg kemísk efni eru talin geta valdið krabbameini og haft áhrif á þroska barna. Kemísk efni geta borist langa leið með haf- og loftstraumum og eru mörg dæmi um það á norðlægum slóðum m.a. á íslenskum hafsvæðum. Íslensk stjórnvöld hafa því lengi lagt áherslu á mikilvægi þess að vinna gegn mengun kemískra efna einkum vegna mögulegra áhrifa þeirra á lífríki hafsins.
Fréttatilkynning nr. 3/2006
Umhverfisráðuneytið