Heimsókn utanríkisráðherra til Stokkhólms
Dagana 13.-14. febrúar sl. voru Geir H. Haarde, utanríkisráðherra og eiginkona hans, Inga Jóna Þórðardóttir, í opinberri heimsókn í Svíþjóð í boði Lailu Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar.
Utanríkisráðherra átti fyrst fund með varnarmálaráðherra Svíþjóðar, Leni Björklund. Ráðherrarnir ræddu þau mál sem hæst ber á alþjóðavettvangi og þátttöku landanna í alþjóðlegu samstarfi á vettvangi friðargæslu. Utanríkisráðherra fór yfir stöðu mála í varnarviðræðum Íslands og Bandaríkjanna og sænski varnarmálaráðherrann fór yfir helstu atriði varnarstefnu Svíþjóðar. Einnig ræddu ráðherrarnir ýmis atriði er varða samstarf ríkjanna, t.a.m. á sviði almannavarna og strandgæslu.
Að því loknu fundaði ráðherra með utanríkisráðherra Svíþjóðar, Lailu Freivalds. Ráðherrarnir ræddu samstarf þjóðanna í alþjóðamálum, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Eystrasaltsráðsins og Norðurskautsráðsins. Ráðherrarnir ræddu stöðu mála í Miðausturlöndum, sérstaklega í ljósi atburða síðustu vikna vegna skopteikningamálsins.
Að loknum hádegisverði í boði utanríkisráðherra Svíþjóðar, átti ráðherra einkafund með Karli Gústav Svíakonungi í Konungshöllinni í Stokkhólmi.
Utanríkisráðherra hélt síðdegis 13. febrúar erindi í sænsku Alþjóðastofnuninni (Utrikespolitiska Institutet) og svaraði spurningum áheyranda um íslensk utanríkismál. Ræðuna er að finna á vef ráðuneytisins.
Einnig hitti utanríkisráðherra samstarfsráðherra Norðurlandanna, Berit Andnor og utanríkismálanefnd sænska þingsins.