Ný stefna fjármálaráðuneytisins tekur gildi
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins – þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Nýlega lauk í fjármálaráðuneytinu stefnumótunarvinnu sem m.a. fól í sér að hlutverk, markmið, gildi og framtíðarsýn ráðuneytisins voru endurskilgreind
í ljósi margvíslegra breytinga sem orðið hafa á starfsumhverfi
ráðuneytisins á síðustu árum.
Meginmarkmið
Samkvæmt stefnu fjármálaráðuneytisins eru meginmarkmið ráðuneytisins
og viðmið í starfsemi þess eftirfarandi:
- stöðugleiki í efnahagslífi og góð lífskjör í landinu,
- jafnvægi ríkissjóðs til lengri tíma litið,
- hagkvæmt og skilvirkt skattaumhverfi,
- ábyrg og árangursrík stjórn ríkisfjármála,
- gagnsær rekstur ríkisins og einfalt skipulag,
- að ríkið hafi á að skipa starfsfólki í fremstu röð sem býr við gott starfsumhverfi,
- að ráðuneytið veiti örugga þjónustu með áherslu á fagleg vinnubrögð.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn ráðuneytisins er sem hér segir:
- Fjármálaráðuneytið vill auka samkeppnishæfni íslensks samfélags
og stuðla að bættum lífskjörum í landinu. - Fjármálaráðuneytið vill vera vettvangur nýrra hugmynda og aðferða við úrlausn opinberra verkefna.
- Fjármálaráðuneytið vill vera eftirsóttur vinnustaður með hæfu og vel menntuðu starfsfólki.
Nálgast má nánari upplýsingar um stefnu ráðuneytisins á vefsíðu þess.